141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

bætt vinnubrögð á þingi.

[10:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra vegna lítils trausts á Alþingi. Það er mikið áhyggjuefni hvað almenningur virðist treysta Alþingi lítið um þessar mundir. Þegar maður hittir fólk heyrir maður og hefur heyrt allhátt í sumar, að fólk segir: Slökkvum bara á sjónvarpinu, við nennum ekkert að horfa á ykkur í þinginu. Þið talið ekki af nógu mikilli hógværð og prúðmennsku, þetta er ekki nógu málefnalegt. Það þýðir ekkert að horfa á þetta, þetta er bara tímaeyðsla. — Það er auðvitað mjög mikið áhyggjuefni í lýðræðisríki að heyra þegar almenningur talar þannig.

Ég hef flutt mál í félagi við nokkra aðra þingmenn um að við reynum að breyta lögum þannig að umræðuhefðin batni á þingi, þ.e. sú umræðuhefð sem hér er við lýði og hvernig þingmenn nota pontuna. Það er alveg séríslenskt fyrirbrigði, má segja, og þekkist ekki á Norðurlöndunum. Þar fá þingflokkar úthlutaðan ræðutíma og nýta hann og reyna að vera með einhverja rökvísi í umræðunni. Síðan er ákveðið hvenær málum linnir, hvenær umræðan hættir, þ.e. umræðutíminn er ákveðinn fyrir fram miðað við þyngd mála.

Ef upp koma gríðarlega umdeild mál getur minni hluti þings, ég nefni Danmörku sem dæmi, þar er það 1/3 hluti þingmanna, skotið slíkum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hefur sú sem hér stendur flutt mál um að við förum þessa norrænu leið og áætlum ræðutímann í öllum málum. Í greinargerð með málinu er minnst á að 1/3 hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um gríðarlega umdeild mál. Að mínu mati mun þetta valda því að meiri hlutinn á hverjum tíma ræður eins og er eðlilegt í lýðræðisríki, en það þýðir líka að meiri hlutinn verður að taka eitthvert tillit til minni hlutans sérstaklega í umdeildum málum, annars á hann á hættu að kallað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um viðhorf hennar til þessa máls og hvort hún muni beita sér fyrir breytingum á þingsköpum og breytingum á stjórnarskrá í þessa veru.