141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:10]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég verð að segja að mér finnst dapurlegt að verið sé að efna til átaka um hvert eigi að vísa þessu máli. Við í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar vorum ekkert sérstaklega sátt við að þessu stærsta umhverfismáli okkar tíma hefði verið vísað til atvinnuveganefndar í vor. Við lutum hins vegar þeirri niðurstöðu og efndum hvorki til átaka né ófriðar um það. (Gripið fram í.) Nú er hins vegar umhverfis- og auðlindaráðuneyti orðið til. Atvinnuveganefnd lauk ekki málinu (Gripið fram í.) eins og búist hafði verið við. Nú í haust mælir umhverfisráðherra fyrir þessu máli (JónG: Hún hefur áður brotið lög.) og það blasir við og er eðlilegt og réttmætt ferli að mál umhverfisráðherra fari til umhverfis- og samgöngunefndar.

Við munum að sjálfsögðu fagna virkri og öflugri aðkomu atvinnuveganefndar að málinu einnig og bjóða þau velkomin til okkar og vinna þetta mál af þeirri alúð og samviskusemi og allri þeirri vandvirkni sem við eigum til. En við eigum að virða (Forseti hringir.) hið réttmæta ferli í þessum efnum. (BirgJ: Heyr, heyr!)