141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil gera athugasemd við ákveðið þema sem mér finnst koma fram ítrekað í máli hv. þm. Péturs Blöndals, það er að fullkomin skil séu á milli verndar og atvinnusköpunar, þau séu eins og svart og hvítt. Að með því að ákveða að vernda tiltekið svæði frá virkjunum séum við þar með að hamla algjörlega gegn atvinnusköpun.

Þá langar mig að benda hv. þingmanni á að eins og kemur til dæmis fram í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar leggja þau gríðarlega mikla áherslu á vernd tiltekinna svæða, sem skapa einmitt atvinnu og verðmæti með því að fá að vera til óbreytt og með því að vera ekki áreitt með virkjanaframkvæmdum, línulögnum og þeirri mengun sem því fylgir. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á umsögnum frá kvikmyndagerðarmönnum sem tala í sama dúr. Þeir segja: Náttúra landsins okkar er gríðarlegt aðdráttarafl fyrir kvikmyndir, fyrir kvikmyndagerðarfólk.

Það að vernda landsvæði nýtist fólki líka til yndisauka, til útivistar, það er annars konar nýting á landi. Rithöfundar, myndlistarmenn og fleiri nýta það sér til sköpunar og eflingar andans og svo mætti lengi áfram telja.

Það að vernda svæði er annars konar nýting á landi, það er annars konar nýting í þágu samfélagsins, okkar mannanna, (Forseti hringir.) náttúrunnar og lífríkisins alls.