141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Ef hv. þingmaður les þetta svona án samhengis við málið í heild, þá skil ég að viðkomandi hv. þingmaður telji að það eigi bara að rannsaka alla svona eftir því sem mönnum dettur í hug. Það er ekki þannig, þetta fer ekki þannig fram. Hins vegar er það svo að menn fara að rannsaka ef þá grunar að brot sé í uppsiglingu, en ekki tiltekið brot, og ekki er búið að fremja það áður. (Gripið fram í: … skrýtið.) Þetta eru forvarnarannsóknir sem við viljum veita lögreglunni meira svigrúm til að fara í, en þetta er alls ekki opin heimild til að rannsaka hvað sem er af því einhverjum datt það bara í hug. Þannig er það ekki stundað á Norðurlöndunum. Þar er stíft eftirlit með beitingu þessara heimilda, að sjálfsögðu.

Auðvitað á að virða friðhelgi einkalífsins og persónufrelsi fólks. En eðlilegt er þegar menn hafa grun um að brot sé í uppsiglingu, þótt ekki sé búið að fremja það og ekki vitað hvers lags brot það er, að fólk sem liggur undir grun sé rannsakað. Að mínu mati er það frekar alvarlegt mál þegar hv. þingmenn vilja ekki taka rökræðuna og líta á þetta í norrænu samhengi og evrópsku samhengi. Eru hv. þingmenn sem tala svona, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, á því að öll lögreglan í flestum Evrópuríkjum og öllum norrænum ríkjum sé í einhverjum rosalegum persónunjósnum og að brjóta gegn friðhelgi fólks? Það er ekki þannig. Það er einmitt verið að reyna að verja fólk með því að veita þessar heimildir. Verið er að verja almenning, verja fólk sem brýtur ekki af sér og verið er að verja fólk sem vill fá frið fyrir glæpamönnum, vill verja eignir sínar, verja sig fyrir líkamsárásum o.s.frv.