141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað verður biðlaunarétturinn virtur nú eins og til stóð á þessum tíma. Við höfum fjallað um þetta mál nokkuð lengi eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Það er búið að fara það ítarlega yfir það að nefndin taldi ekki ástæðu til þess að kalla eftir frekari umsögn að svo stöddu. Þetta mál hefur hlotið það mikla umfjöllun að við teljum að það eigi í rauninni bara að koma til efnislegrar afgreiðslu í þinginu og auðvitað umræðu núna.

Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns um gildistökuna þá höfum við ekki farið sérstaklega yfir það í nefndinni hvort ástæða sé til þess að fresta henni. Aðkoma starfsmanna hefur verið töluverð í gegnum tíðina og ég held að málið sé þannig statt að það sé hægt að hafa gildistökuna 1. janúar á næsta ári. Ef einhverjir meinbugir eru á því er full ástæða til þess að fara yfir það og skoða í samráði við ráðuneytið og starfsmenn hvort ástæða sé til þess að fresta gildistökunni um einn eða tvo mánuði og bara sjálfsagt að gera það ef ástæða er til. Það hafa verið gerðar það miklar breytingar hvað varðar starfsmannamálin og þær tölur sem við horfðum til fyrir þremur árum hafa auðvitað færst til. Ef ég man rétt eru um 14 starfsmenn í samanlagðri stofnun sem ljúka bráðum störfum og er ætlað (Forseti hringir.) að ná fram sparnaði með því að ráða ekki í þeirra stað.