141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

20. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Markmiðið með frumvarpinu er að leggja til að margnota bleiur verði færðar úr efsta skattþrepi, sem er 25,5%, í 7% skattþrep. Ástæðan fyrir því að við leggjum fram sérstakt frumvarp um þessa virðisaukaskattslækkun er sú að okkur tókst ekki í vor að fá hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að samþykkja slíka skattbreytingu þegar verið var að samþykkja lækkun á virðisaukaskatti á raf- og tvinnbílum. Ástæða þess að hv. ríkisstjórn lagði til skattalækkun eða virðisaukaskattslækkun á raf- og tvinnbílum var einmitt sú að auka kaup og notkun almennings á umhverfisvænum bifreiðum.

Í umræðum í efnahags- og viðskiptanefnd kom fram að þessi ökutæki eru afar dýr, þau kosta að meðaltali um 5 milljónir. Það var alveg ljóst að skattalækkunin mundi fyrst og fremst gagnast fólki sem hefði fjármagn á milli handanna. Þannig að okkur hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fannst nauðsynlegt að koma til móts við fleiri sem kjósa að lifa umhverfisvænt og leggja til að margnota bleiur fari úr efsta virðisaukaskattsþrepi, sem er 25,5%, niður í 7% virðisaukaskatt.

Það er von okkar að hv. efnahags- og viðskiptanefnd sjái ástæðu til að fara út í þessa skattalækkun vegna þess að hún mun gagnast hópi barnafólks sem er með afar þung útgjöld, meðal annars út af bleiukaupum sem eru þá í flestum tilfellum einnota bleiur. Síðan er því þannig farið að margnota bleiur eru umhverfisvænni hér á landi en í mörgum öðrum löndum, vegna þess að við notum umhverfisvæna orku við bleiuþvott en aðrar þjóðir orkugjafa sem ekki eru skilgreindir sem græn orka eins og okkar orka.

Frú forseti. Því hefur verið haldið fram að enginn munur væri á einnota pappírsbleium og margnota bleium hvað varðar mengun, en það er ekki rétt, ekki þegar við skoðum málið hér á landi. Eins og ég sagði áðan er raforka græn orka og hana notum við til að þvo margnota bleiur. Minni mengun er því af bleium hér á landi en í löndum þar sem mengandi orkugjafar eru notaðir til að þvo margnota bleiur.

Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar notar hvert barn á Íslandi 5–6 þúsund einnota bleiur á fyrstu æviárum sínum. Það gerir um tvö tonn af sorpi. Niðurbrotstími þeirra tveggja tonna er um 500 ár í náttúrunni — fimm hundruð ár. Markmið frumvarpsins er að ná tonnafjöldanum niður og draga úr mengun sem framtíðarkynslóðir þurfa að takast á við.

Ég vil að lokum ítreka hið tvöfalda markmið sem er með lækkun á virðisaukaskatti á margnota bleium. Það er í fyrsta lagi að hvetja foreldra ungbarna til að nota umhverfisvænar bleiur, margnota. Annað markmið er að koma til móts við þung útgjöld fólks sem er með börn sem nota bleiur. Það fólk er, á sama tíma og það er með ung börn, að reyna að fjárfesta í húsnæði. Það skiptir því miklu máli hvort bleiur eru í 25,5% skattþrepi eða í 7% skattþrepi þegar þetta fólk tekur ákvörðun um hvort það eigi að leyfa sér að vera umhverfisvænn neytandi eða ekki.

Frú forseti. Ég vonast til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði alvarlega að samþykkja þessa lækkun virðisaukaskatts á margnota bleium fyrir áramótin. Það er jú um áramótin sem við breytum flestum sköttum, ekki síst virðisaukaskatti. Ég vil líka geta þess að miklar væntingar eru meðal fólks sem á ung börn um að frumvarpið komist í gegn. Vonandi getur þingið komið til móts við væntingar hóps ungra foreldra hér á landi.