141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:05]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær eiga að fela í sér, eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem sú er hér stendur flytur ásamt fleirum, að lögreglan fengi heimild til að safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið. Það þyrfti auðvitað að skoða þau mál faglega í innanríkisráðuneytinu. Þar þyrfti til dæmis að ákveða hvernig eftirlitinu ætti að vera háttað, við í allsherjar- og menntamálanefnd ákváðum það ekki heldur var sett í hendur innanríkisráðuneytisins að koma með tillögur þar að lútandi til þingsins í frumvarpsformi. Það er heilmikil vinna eftir við að koma slíkum heimildum á. Þær þyrfti að skilgreina skýrt og koma á mjög öflugu eftirliti með því hvernig þeim yrði beitt af því að við viljum að sjálfsögðu ekki að þeim verði misbeitt. Slíkt eftirlit er með þess konar heimildum á hinum Norðurlöndunum, þar hafa mál tekist vel.

Ég tel að við yrðum að leita í smiðju Norðurlandanna varðandi lagaumhverfi okkar. Við erum með frekar líka uppbyggingu á lögregluumhverfi okkar og á Norðurlöndunum, kannski sérstaklega í Noregi, og við ættum að skoða hvernig þar er farið með slíkar heimildir og koma þeim fyrir eins og við teljum réttast miðað við íslenskar aðstæður. Ég tel að þar liggi besta faglega þekkingin, hjá lögreglunni sjálfri og hjá innanríkisráðuneytinu. Þetta verkefni mundi hæstv. innanríkisráðherra fá þegar og ef Alþingi samþykkir að við gerum eins og annars staðar á Norðurlöndunum og komum á forvirkum rannsóknarheimildum.