141. löggjafarþing — 28. fundur,  25. okt. 2012.

meðferð sakamála.

292. mál
[17:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hélt að ég ætti eftir eitt andsvar en svo er ekki þannig að þetta verður stutt ræða.

Hæstv. ráðherra reynir að mínu mati að kasta svolitlu ryki í augu fólks með málflutningi sínum með því að segja: Það þarf ekki að vera rökstuddur grunur um neitt þegar menn beita þessum rannsóknarheimildum. Það er ekki þannig. Menn beita þessu ekki á einhvern Jóa Jóns úti í bæ ef enginn grunur er um neitt. Það er ekki þannig, það er hvergi gert þannig. Málið er að það liggur ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið brot, brot A eða brot B, tiltekið brot. Það er galdurinn. Ég tel að hæstv. ráðherra viti þetta.

Ég trúi ekki að hæstv. ráðherra sé að gefa það í skyn að hin löndin, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og önnur Evrópuríki, séu að brjóta mannréttindi í massavís. Lögregluliðin þar hafa þessar heimildir. Að sjálfsögðu eigum við að taka upp sömu heimildir hér. Þessi lið verða að geta verið í góðu samstarfi og eiga þess vegna að hafa svipaðar og eins heimildir, fyrir utan það að við eigum að geta varið almenning gegn brotum. Auðvitað getum við ekki gengið þannig fram að verið sé að brjóta mannréttindi á fólki almennt, það er ekki meiningin. Ég átta mig ekki á af hverju hæstv. ráðherra dregur það inn í umræðuna.

Við eigum að gera þetta nákvæmlega eins og gert er á Norðurlöndunum. Við eigum að veita lögreglunni sambærilegar heimildir og hún hefur í öðrum norrænum ríkjum þannig að hægt sé að afla upplýsinga um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið brot sem framið hefur verið, brot A sem framið hefur verið, sem búið er að fremja. Hér er átt við tilvik áður en brot er framið enda heita þetta fyrirbyggjandi rannsóknaraðgerðir, þær eru forvirkar, fyrirbyggjandi. Áður en brot er framið, áður en eitthvert tiltekið brot er framið. Hæstv. ráðherra gerir sér örugglega grein fyrir því í hverju munurinn felst. Og auðvitað eigum við að geta rannsakað slíkt eins og lögregluliðin á Norðurlöndunum. Við eigum ekki að sitja með hendur í skauti og halda að ekki reki á fjörur okkar alvarlegir glæpir sem hægt er að koma í veg fyrir með þessum heimildum.

Nú erum við komin kannski svolítið djúpt út í umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir, mál sem ráðherra er ekki að flytja hér, og ég ítreka að við skulum ekki rugla þessum tveimur málum saman. En það er ágætt að taka þessa umræðu, sérstaklega í ljósi þess að ráðherra flutti frumvarp á síðasta þingi og hélt mikinn blaðamannafund þar sem gefið var í skyn að verið væri að veita heimildir í áttina að forvirkum rannsóknarheimildum. Það var alls ekki þannig heldur þveröfugt. Og öll embætti lögreglunnar sem komu á fund allsherjar- og menntamálanefndar sögðu: Almáttugur, ekki samþykkja þetta, það er bara skref aftur á bak. Þannig að frumvarpi ráðherra var smeygt ofan í skúffu og hefur ekki séð dagsins ljós síðan.