141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra varðandi áfengisauglýsingar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort auglýsingum á öli þar sem óverulegur munur er á umbúðum áfengs öls og léttöls hafi fjölgað í Ríkisútvarpinu á síðustu missirum, og ég er aðallega að spyrja um sjónvarp. Ég spyr hvort ráðherra telji að með slíkum auglýsingum sé bann við að auglýsa áfengi sniðgengið og vísa sérstaklega í nýja auglýsingu sem meðal annars var sýnd 24. október á RÚV, hún fjallaði um nýju Bond-myndina, Skyfall. Ég spyr líka hvort hæstv. ráðherra telji að lýðheilsusjónarmið vegi þyngra en tjáningarfrelsið, eins og hæstaréttardómur hefur reyndar sýnt fram á, hvort hæstv. ráðherra sé sammála því.

Í auglýsingunni áðurnefndu var verið að auglýsa Heineken-léttöl. Ég veit reyndar ekki hvort það er selt í landinu, ég hringdi í nokkra stórmarkaði og það var alla vega ekki selt hjá þeim. Þarna er að mínu mati verið að sniðganga lög og þetta er ekki eina tegundin af bjór sem verið er að selja þar sem slíkt er stundað. Við höfum oft séð það í fjölmiðlum að verið er að auglýsa léttöl sem er í umbúðum sem eru nánast algjörlega eins og umbúðir áfenga ölsins, stækkunargler þarf til að sjá orðið léttöl á dósunum.

Við höfum tvívegis reynt að taka á því í þinginu að banna þetta, að banna framleiðendum að selja áfengan bjór í umbúðum sem eru svo líkar umbúðum fyrir léttan bjór að munurinn sést varla. Okkur hefur ekki tekist að ná fram meiri hluta á Alþingi, en ég tel að hann sé fyrir hendi. Það er kannski helst út af andstöðu eins flokks og er það ekki gott. Ég tel mjög mikilvægt að við göngum þannig frá lögum að þessar auglýsingar heyri sögunni til. Því fyrr því betra.

Það hefur stundum heyrst í umræðunni að þetta auglýsingabann sé heldur óþægilegt, sérstaklega fyrir innlenda framleiðslu á bjór. Ég vil taka fram að samkvæmt upplýsingum ÁTVR var salan í fyrra, árið 2011, 14,4 milljónir lítra. Innfluttur bjór var 26%. Innlendur bjór var 74%. Innlendi bjórinn er því sá sem selst og það eru ekki mörg fyrirtæki sem í hlut eiga. Segja má að fimm aðilar séu stærstir. Það eru Vífilfell með 47%, Ölgerðin Egill Skallagrímsson með 26%, HOB-vín ehf. með 10%, Vín Tríó ehf. með tæplega 5% og Rolf Johansen og Co. með 3,4%.

Ég spyr um viðhorf hæstv. menntamálaráðherra til þessa þar sem hæstv. ráðherra fer með málefni RÚV. Ég tel að þessum auglýsingum verði að linna. Því fyrr, því betra.