141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Svo það sé bara sagt mjög skýrt þá er ég algjörlega andsnúin því að leyfa áfengisauglýsingar, algjörlega, og það er alveg ljóst að neyslan mundi aukast ef þær yrðu leyfðar. Ég ætla að minna á að Norðurlandaráð samþykkti stefnu í þessari viku um að banna ætti auglýsingar sem sneru að ungu fólki, bæði á áfengi og markaðssetningu líka. Það er verið að markaðssetja mikið áfengi núna, sérstaklega gagnvart ungu fólki og sérstaklega gagnvart ungum stúlkum, konum, og það er mjög slæmt.

Það sem hefur virkað í þessari áfengisstefnu á alheimsvísu er stefna Norðurlandanna, takmarkað aðgengi og takmarkaður sýnileiki. Við eigum því alls ekki að gefa eftir í þessu þó að stórfyrirtækin vilji það. Auðvitað vilja fyrirtækin það. Þau vilja auglýsa. Þau vilja selja meira og þau eiga mikilla hagsmuna að gæta. Ég er sannfærð um að þau reyna að hafa áhrif á þingmenn og stjórnmálaflokka og hafa alltaf gert. Það er þannig sem kaupin gerast á eyrinni.

Ég er algjörlega ósammála því að leyfa eigi áfengisauglýsingar. Þær eru bannaðar. Bannið er hins vegar sniðgengið. Það er greinilega sniðgengið, það er greinilega verið að auglýsa bjór í sjónvarpinu og það á að taka fyrir það. Ég skora á þingheim að taka höndum saman og leyfa meiri hlutanum að koma í ljós í þinginu af því að ég tel að meiri hluti sé fyrir því að viðhalda lögunum eins og þau eru, þ.e. banninu, en koma í veg fyrir sniðgönguna.

Ekki má gleyma því að með takmörkunum á þessu sviði erum við að sýna fram á að áfengi er ekki venjuleg vara. Áfengi er ekki eins og mjólk og brauð. Áfengi er allt önnur vara. Það er enginn að tala um að banna áfengi, það er bara verið að tala um að auglýsa það ekki, vera ekki að koma því á framfæri, ekki að ota því að fólki og reyna svo að taka á þeim afleiðingum sem þeir verða fyrir sem neyta þess í óhófi — taka á slysum, taka á dauðsföllum, taka á öllum þeim kostnaði sem samfélagið ber vegna ofneyslu áfengis.