141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég að lýsa því yfir að það er ekkert verið að tefja málið með því að koma með breytingartillögur við það vegna þess að við höfum nægan tíma. Búið er að fresta lokaniðurstöðu rannsóknarinnar fram á næsta kjörtímabil þannig að við erum ekkert að tefja málið (Gripið fram í.) og þinglok eru ekki fyrirsjáanleg nærri strax, ég vil að það komi fram.

Ég er nú þegar búin að boða að verði breytingartillaga mín felld og alþingismenn vilja ekki renna þessum tveimur rannsóknum saman á einkavæðingunni fyrri og þeirri síðari, mun ég leggja fram þingmál sama dag sem lýtur að því að síðari einkavæðingin verði rannsökuð sjálfstætt. Auðvitað hlýtur það að koma mjög sterklega til greina að sömu aðilar sitji í þeirri rannsóknarnefnd, þeir hafa þá aflað sér þekkingar varðandi rannsókn á fyrri einkavæðingunni og eru með góðan gagnagrunn í því máli. Það ætti ekki að taka svo langan tíma að rannsaka einkavæðinguna fyrri vegna þess að gerð yrði rannsókn á einkavæðingunni hinni síðari í kjölfarið.

Ef þingmenn vilja hafa þetta tvær aðskildar þingsályktunartillögur þá lýt ég vilja þingsins. En ég tel að það sé langbest að samþykkja þetta í einni þingsályktunartillögu þannig að hægt sé að fara áfram með málið.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að bankarnir yrðu jafnvel einkavæddir að nýju eftir tvö til þrjú ár. Það ferli er komið í fullan gang vegna þess að í fjárlögum fyrir árið 2013 er heimild fyrir fjármálaráðherra að selja hluti í bæði eignarhlut (Forseti hringir.) ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka. Einkavæðingin er því farin á fulla ferð á nýjan leik og ríkið er farið að selja sína hluta.