141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar, spurningar hafa vaknað, margar spurningar á löngum tíma, en svörin liggja bara ekki fyrir. Við fjölmörgum spurningum, sem hafa verið uppi á borði í þessum efnum, liggja engin svör þrátt fyrir þær úttektir og skýrslur sem unnar hafa verið. Við getum kannski ekki sagt að í skýrslu Ríkisendurskoðunar bendi eitthvað til þess að hún hafi komið að læstum dyrum heldur er þar ekki fjallað um ákveðin atriði sem skipta verulegu máli í þessu öllu eins og meðal annars er vikið að í úttektum fjölmiðla- og fræðimanna sem hafa verið að taka utan um málið nú á síðari árum. Þeir aðilar sem hafa viljað fá nánari og skýrari upplýsingar hafa rekið sig á veggi, þeir fá ekki aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem menn vita að eru til en eru ekki aðgengileg fyrir þessa aðila. Þess vegna skiptir máli að sá aðili sem hefur allan rétt til að fara í þessi gögn og skoða þau fái tækifæri til að svara umræddum spurningum.