141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ágætismál að rannsaka og skoða löngu liðna hluti. Varðandi einkavæðingu bankanna hefur rannsókn nú þegar farið fram og mér hefur þótt talsvert skorta á að menn gerðu grein fyrir því hvaða þættir einkavæðingarferlisins þyrftu að koma til betri skoðunar. En gott og vel. Við höfum verið opin fyrir því að ræða það.

Það er hins vegar annað sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á hér við þessa atkvæðagreiðslu, sem er býsna alvarlegt mál og mér finnst að þingmenn allir þurfi að huga að. Það er þetta hér: Þegar tillögur hafa komið fram frá stjórnarandstöðunni um rannsóknir á málum sem snúa að ríkisstjórninni hafa þau mál ávallt verið látin daga uppi á þessu þingi eða þeim er vísað frá af einhverjum tæknilegum ástæðum. Þetta er ekki gott mál. Þetta er mjög mikið og alvarlegt umhugsunarefni fyrir þingheim allan. Ef það á að vera þannig að meiri hluti hvers tíma geti komið á fót rannsóknarnefndum um hin og þessi mál en vísað frá sérhverri tilraun minni hlutans til að láta skoða eigin gjörðir þá erum við á villigötum. Hitt er síðan kostnaðurinn. Við erum með tvær rannsóknir, á lífeyrissjóðakerfinu og Íbúðalánasjóði, sem kosta hálfan milljarð (Forseti hringir.) á sama tíma og (Forseti hringir.) lækningatæki skortir í heilbrigðisþjónustunni. Þetta á að vera okkur mikið umhugsunarefni (Forseti hringir.) líka í tilefni af þessari tillögu.