141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:28]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér kom fram, í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals o.fl., að í gær fór fram ágæt umræða um þetta mál líkt og í nefndinni sjálfri þegar þetta var þar til umfjöllunar. Fyrir liggur að breið samstaða er um að fara í þessa úttekt á einkavæðingunni 2002 og líka fullur vilji til þess að menn skoði það sem gerðist eftir hrun.

En það liggur fyrir að sú tillaga sem hér hefur verið flutt sem breytingartillaga við tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að mati okkar í meiri hlutanum ekki tæk sem slík. Það þarf að laga hana til varðandi orðalag og ákveðið efni. Það er til dæmis alveg út í hött að vera að tala um einkavæðingu (VigH: Er það ekki Alþingi sem ákveður það?) þegar um er að ræða banka sem eru komnir í gjaldþrotaskipti, það er mál sem er allt annars eðlis en það sem átti sér stað í hinni formlegu einkavæðingu 2002.

Það eru ýmsir hlutir sem þarf að laga og það er undir þeim aðilum sem fluttu tillöguna komið hvort þeir vilji fara þá leið eða ekki.