141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kom einmitt fram núna það sem ég held að búi undir, í orðum síðasta ræðumanns. Það er enginn vilji til að rannsaka nýju einkavæðinguna. Þetta er yfirskin, það er verið að þyrla upp ryki til að ríkisstjórnarflokkarnir geti farið í það sem þeim í raun liggur best fyrir að gera, það er að reyna að stjórna umræðunni og beina henni eitthvert allt annað en að því sem máli skiptir. Það er það sem verið er að gera með þessu máli.

Ég get ekki samþykkt að það eigi að fara að velta hér aftur upp og rannsaka 10–15 ára gamalt verk þegar við þurfum að rannsaka það sem er að gerast í dag, ef það á að rannsaka eitthvað á annað borð. Af hverju skoðum við ekki hvernig menn hafa verið að reyna að leysa úr Icesave-málinu sem er líklega eitt það dýrasta klúður sem demba átti yfir íslensku þjóðina? Hvað með einkavæðingu bankanna hina seinni, sem er ekkert annað en einkavæðing? Öll einkenni og allt sem þar var gert var einkavæðing og ekkert annað. Ég hvet hv. þingmenn til að samþykkja tillögu Vigdísar Hauksdóttur svo að hægt sé að ná breiðari samstöðu um allar þær rannsóknir sem hér eiga að fara fram.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja við hv. þingmenn: Er ekki líka kominn tími til að menn setjist niður og fari vandlega yfir það hvað það er sem allir geta sammælst um að rannsaka og hvað ekki og horfa svo til framtíðar?