141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Orðræða og málflutningur hv. stjórnarþingmanna veldur mér miklum vonbrigðum. Það er ekki sannfærandi að koma hingað og segja að mikilvægt sé að upplýsa mál þegar menn eru á sama tíma ekki tilbúnir að skoða það sem við þurfum virkilega að skoða núna. Það er ekki sannfærandi, virðulegi forseti, og það er ekki sannfærandi að stjórnarmeirihlutinn geri hv. þingmönnum, sem eru að reyna að rækja hlutverk sitt og veita framkvæmdarvaldinu aðhald, erfitt fyrir með því að svara ekki fyrirspurnum og ef svörin koma, seint og illa, þá eru þau út í hött. Um það eru því miður mýmörg dæmi.

Núna koma hv. stjórnarþingmenn upp og segja að þeir vilji gjarnan samþykkja tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, þeir ætli bara ekki að gera það. Það er ekki sannfærandi.

Þá erum við komin á þann stað sem nokkrir hv. þingmenn hafa (Forseti hringir.) hafa varað við, að ekki sé verið að gera þetta til þess að við getum lært af því og nýtt það (Forseti hringir.) heldur liggi einhverjar aðrar hvatir að baki sem eru ekki æskilegar eða góðar.