141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:49]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að þingheimur er að samþykkja þessa tillögu. Ég get tekið undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að það hefði verið betri bragur á því ef allir flokkar hefðu getað sameinast um þessa tillögu.

Ég vil lýsa því yfir í ljósi umræðu áðan um breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur að ég er fylgjandi því að fram fari rannsókn á því ferli sem átti sér stað eftir hrun og mun styðja það ef slík tillaga verður lögð fram í næstu viku.

En það er mikilvægt í ljósi orða sem hér féllu úr munni hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að það komi skýrt fram að það voru einmitt fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd sem lögðu fram tillögu um að dreifð eignaraðild yrði eitt af þeim viðmiðum sem lögð yrðu til grundvallar í einkavæðingu bankanna. Því miður hafnaði stjórnarmeirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þeirri tillögu og því fór sem fór.