141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð umræða og snýr að grundvallaratriðum. Ég vil segja, bara til að ljúka þessum þætti málsins af minni hálfu, að ef þær röksemdir gengju upp að það væri einhvers konar þjóðareign skiptir í sjálfu sér ekki máli hversu langt er um liðið frá því að eignarréttinum var komið á eða takmörkunin sett. Þegar takmörkunin var sett í árdaga hvað varðar nýtingu landsins sjálfs með því að takmarka og skilgreina eignarrétt manna á ákveðnum svæðum lá ríkisvald að baki með einhverjum hætti, sameiginlegar reglur í lögum. Ef menn vilja skoða þetta í þessu samhengi hefur ríkisvaldið þar með, þó að langt sé um liðið, á grundvelli þeirrar takmörkunar sem varð hér fyrir meira en þúsund árum, áfram tæki, möguleika og réttlætingu til að grípa utan um þann hluta rentunnar sem lýtur að jarðræktinni, beitarlandi og öðru slíku. Það var bara miklu seinna sem það gerðist með sjávarútveginn en grundvallarhugsunin er hin sama.

Mig langar að víkja aðeins að öðru en þakka reyndar fyrst hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa umræðu. Mér þykir í umræðu um auðlindir sem við missum stundum sjónar á hvað um er að ræða, bæði hv. þingmenn og aðrir. Ég ætla að taka dæmi: Hvað er hið mikilvæga í þessum málum? Hið mikilvæga er að við búum til sem mest verðmæti úr auðlindunum.

Ég er einn þeirra hv. þingmanna sem hafa verið mjög á móti strandveiðifyrirkomulaginu. Af hverju hef ég verið á móti því, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að hér er um að ræða auðlind, fiskveiðiauðlindina, og það sem gert var í því fyrirkomulagi var þess eðlis að heildarverðmætið minnkaði, mismunurinn á milli kostnaðar við að sækja þessa auðlind og teknanna af henni, þ.e. afraksturinn. Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna þess að þegar við innleiddum þetta strandveiðikerfi fjölgaði ekki fiskunum sem dregnir voru á land. Áfram var sami heildaraflinn en það sem breyttist var að bátunum fjölgaði, við sendum fleiri skip á sjó, fleiri menn voru til að draga sama afla úr sjó, meiri olía var notuð o.s.frv., aðallega fleiri skip og fleiri menn.

Virðulegi forseti. Þjóðir verða ríkar við það að þær lágmarka kostnaðinn við nýtingu auðlindanna og reyna að hámarka tekjurnar. Síðan geta menn skipt afrakstrinum. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því með okkar auðlindir að við getum valið að segja: Heyrðu, við skulum hafa óhagkvæman sjávarútveg, reyna að hafa sem flest skip á sjó, sem flesta smábáta og sem flesta menn. Þar með gerum við fiskveiðiauðlindina verðminni, en hvað mun það þá þýða? Það mun þýða að við höfum minna til skiptanna, það verða lélegri lífskjör í landinu, launin verða lægri hjá þeim sem eru að vinna þessa vinnu vegna þess að heildartekjurnar aukast ekki en kostnaðurinn gerir það. Það þýðir fyrir ríkisvaldið sem innheimtir síðan skatt af þessari auðlind að það verður minna til skiptanna til að reka menntakerfið, heilbrigðiskerfið, tryggingakerfið og allt það sem við viljum svo gjarnan geta boðið upp á þannig að við séum í fremstu röð í heiminum þegar kemur að þessum málum. Þetta er val.

Virðulegi forseti. Tilgangurinn með auðlindanýtingunni er ekki fjöldi starfanna, heldur verðmætið. Ef við nýtum auðlindirnar rétt og búum til verðmæti verða nefnilega til enn fleiri störf. Þau verða ekki endilega akkúrat við það að nýta auðlindina með hefðbundnum hætti. Horfum á fiskveiðiauðlindina og sjáum fyrirtæki eins og Marel og önnur tæknifyrirtæki sem verða til í tengslum við auðlindanýtinguna. Þau byggja á þekkingu, vísindum og rannsóknum um það hvernig við getum nýtt auðlindina betur.

Fleiri slík dæmi er hægt að nefna og það gerist vegna þess að við nýtum auðlindina eins skynsamlega og við getum þannig að afraksturinn verður sem mestur. Það er lykilhugtak þegar kemur að því að skilja — og það er það sem við erum að ræða hér — hvað er auðlind sem er síðan grundvöllurinn að því hvernig við hugsum um auðlindir og nýtingu þeirra. Það er svo mikilvægt, virðulegi forseti, að við höfum þessi hugtök sæmilega á hreinu og hvernig við eigum að nálgast þá nýtingu á þessum grundvallarþætti í okkar (Forseti hringir.) íslenska efnahagskerfi.