141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

skýrsla McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins um íslenska hagkerfið.

[10:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku kom út skýrsla frá fyrirtækinu McKinsey þar sem þeir fara yfir íslenska hagkerfið og benda á það sem vel er gert og tækifæri til að gera enn betur. Það sem hefur greinilega tekist mjög vel hjá okkur Íslendingum undanfarna segjum tvo áratugi er að auka framleiðnina í íslenskum sjávarútvegi. Svo vel hefur það tekist hjá okkur að við berum höfuð og herðar að því er virðist yfir allar aðrar þjóðir í þeim efnum. Þetta hlýtur að vera ríkisstjórninni mikið umhugsunarefni þar sem meira eða minna allar tillögur hennar á þessu kjörtímabili hafa lotið að því að gera breytingar sem munu draga úr hagkvæmni veiðanna.

McKinsey benda á að það skipti sköpum fyrir lífsgæðin á Íslandi að okkur takist að hafa hámarksframleiðni í sem flestum greinum. Þar er bent á ýmsar aðrar greinar en sjávarútveginn, t.d. orkunýtinguna. Þeir ganga svo langt að segja að það geti skipt sköpum um lífskjör á Íslandi í framtíðinni að taka réttar ákvarðanir varðandi orkunýtinguna á næstu missirum. Ég vona að ríkisstjórnin horfi til þessa, sérstaklega núna þar sem við erum til dæmis að meðhöndla rammaáætlun sem getur haft mjög mikil áhrif á það úr hvaða kostum við höfum að spila á næstu árum.

Það er margt fleira sem rætt er í þessari skýrslu sem ég get ekki farið yfir hér en mig langar til að bera upp við forsætisráðherra þá spurningu hvort henni lítist ekki vel á þá hugmynd sem McKinsey koma fram með um að nú sé rétt, á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir hafa dregið saman, að koma á samráðsvettvangi milli stjórnmála og atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila á Íslandi til að vinna áfram með þann grunn sem þeir hafa lagt og byggja á honum áætlun til sjö eða tíu ára um það hvernig við færum hinar ýmsu stoðir efnahags okkar í átt til meiri framleiðni og þar með (Forseti hringir.) leggjum grunn að bættum lífskjörum í landinu. Hvernig tekur forsætisráðherra í þessa hugmynd?