141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

gjaldeyrishöft.

[10:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Gjaldeyrishaftavandamálið er þannig vaxið að það mun þurfa sameiginlegt átak stjórnar, stjórnarandstöðu, verkalýðshreyfingar og Samtaka atvinnulífsins til að hægt sé að móta stefnu til að leysa þennan vanda.

Hluti af vandanum er sá að það hefur gengið illa að skilgreina umfang hans. Á undanförnum dögum og vikum hefur komið í ljós að vandinn er meiri en menn ætluðu. Það kemur fram í Morgunblaðinu í dag að Seðlabankinn hafi átt í erfiðleikum með að fá upplýsingar frá slitastjórnunum um samsetningu krafna og upphæðir.

Ég vil því spyrja forsætisráðherra fyrst þessa: Gerði Seðlabankinn ríkisstjórninni grein fyrir því að bankinn ætti erfitt með að fá þessi gögn? Þau skipta verulegu máli í mati á þessum vanda sem um leið hefur áhrif á það hvaða stefnu við eigum að taka. Og ef svo er, hver voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar?

Í öðru lagi kemur líka fram að heimildarmenn innan úr bankanum hafi sagt að bankinn hafi upplifað sig sem einangraðan í þessu máli. Þetta mál, virðulegi forseti, fullyrði ég að sé svo mikilvægt að það getur ekki bara verið á forræði Seðlabankans. Ég ítreka að það þarf samstöðu stjórnar, stjórnarandstöðu og allra annarra sem að þessu máli koma.

Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að koma hér upp núna og lýsa því yfir að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að ekki verði kláraðir nauðasamningar þrotabúanna, það liggi fyrir skýr vilji ríkisstjórnarinnar þannig að Seðlabankinn fái skýra leiðsögn frá ríkisstjórninni hvað varðar þetta gríðarlega mikla hagsmunamál Íslands?