141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

gjaldeyrishöft.

[10:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra þetta svar. Það skiptir miklu máli að málið sé tekið upp og Seðlabankanum send þau skýru skilaboð að ef hann skortir einhverjar valdheimildir til að afla sér upplýsinga til að hægt sé að leggja mat á umfang vandans eigi hann strax að snúa sér til framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins til að hægt sé að bæta þar úr. Málið er svo mikilvægt.

Ég ítreka þá síðari lið spurningar minnar til hæstv. forsætisráðherra sem snýr að því að staðan er núna þannig að það er á valdi Seðlabankans eins að láta nauðasamningana ganga fram. Virkilega góð rök hafa verið færð fyrir því að það kynni að veikja samningsstöðu Íslands ef nauðasamningarnir gengju fram.

Því spyr ég aftur hæstv. forsætisráðherra: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að lýsa því yfir í ræðustól Alþingis að það séu skilaboð ríkisstjórnarinnar til Seðlabankans að nauðasamningarnir muni ekki ganga fram og þá að minnsta kosti ekki nema að (Forseti hringir.) höfðu fullu samráði við ríkisstjórnina þannig að það sé ekki bara ákvörðun Seðlabankans eins að þannig verði haldið á málum — ef til þess kæmi?