141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

kjaramál aldraðra.

[11:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Okkar sameiginlegi félagi, Guðjón Guðmundsson, hefði getað hringt eitt símtal og fengið staðfestingu á því að gert er ráð fyrir hækkun þarna frá 1. janúar á næsta ári. Hefur í því sambandi verið talað um 10 þús. kr. hækkun þannig að það fer umfram það sem hv. þingmaður nefndi, eða upp í 75 þús. kr. Nú er ekki búið að ganga alveg frá þeirri tölu og á eftir að gefa út reglugerðir og annað slíkt en ég tek undir með Guðjóni Guðmundssyni og hv. þingmanni að auðvitað á þetta að fylgja verðlagi ef hægt er.

Þetta er auðvitað hluti af miklu stærra máli sem við þurfum að skoða, þ.e. með hvaða hætti greiðslur á hjúkrunarheimilum eiga sér stað. Við höfum talað um að við þurfum helst að tryggja að fólk fái sjálft peningana og síðan greiði það fyrir þá þjónustu sem það fær á viðkomandi hjúkrunarheimilum. Þannig þurfi það að vera til lengri tíma. Þangað erum við ekki komin en ástæða er til að vekja athygli á því að það hefur oft komið til umræðu. Hér geta menn þurft að greiða allt upp í 290–300 þús. kr. á mánuði fyrir hjúkrunarrými ef menn hafa háar tekjur. Við erum nýbúin að láta gera úttekt á því að greiðslan sem kemur frá einstaklingum á hjúkrunarheimilum er innan við 5% af heildinni. Sem betur fer er það ekki stærsti hlutinn. Almennt heldur samfélagið utan um þessa einstaklinga og borgar fyrir þá gjöldin. Hæsta greiðslan er um það bil 40% af raunkostnaði við hjúkrunarheimilið þegar menn borga 290–300 þúsund.

Svarið við spurningu hv. þingmanns er einfaldlega það að til stendur að leiðrétta þetta og er kominn tími til. Vonandi verður það fljótlega að veruleika þegar reglugerð kemur fyrir gjaldskrárbreytingar næsta árs.