141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

kjaramál aldraðra.

[11:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það sem er náttúrlega meginumhugsunarefnið í sambandi við allt það sem við höfum verið að gera á árunum 2009–2012 er: Af hverju í veröldinni lentum við í að þurfa að gera þetta? Af hverju þurftum við að horfa upp á samfélag okkar hrynja? Við þurftum að endurskoða fjárlög og skera niður um 25% almennt. (Gripið fram í.) Þetta er hluti af því sem þarna hefur verið valið að halda niðri og nú verðum við að bæta úr því. Það gildir um fleiri þætti sem frystir hafa verið á þessum tíma og hafa ekki tekið verðlagshækkunum gagnstætt því sem maður hefði sjálfur viljað, en í þeim þrengingum hefur markvisst verið unnið að því að hjálpa þeim sem minnst hafa á kostnað þeirra sem haft hafa heldur betri kjör. Það birtist líka í greiðslum varðandi hjúkrunarheimili að þeir sem hafa hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum og komið sér betur fyrir hafa verið látnir greiða meira en þeir sem verr standa.

Þannig hefur stefna okkar verið og við munum halda okkur við hana (Forseti hringir.) en engu að síður þurfum við að leiðrétta þetta miðað við verðlag eins og við höfum ákveðið og þegar er búið að upplýsa hér.