141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. formanni fjárlaganefndar að eðlilegt er að hafa áhyggjur af því hvernig kostnaður við S-merktu lyfin hefur þróast. Fyrirhuguð er endurskoðun á þessum S-merkta lista. Henni var því miður frestað, gildistöku laganna um nýtt lyfjaendurgreiðslukerfi til 1. janúar næstkomandi og heyrst hafa raddir um að fresta því enn frekar, sem mér finnst ekki gott. Þetta er mikið hagsmunamál sjúklinga og gæti skipt miklu um stjórnun á S-merktu lyfjum.

Ég vil aðeins spyrja hv. formann fjárlaganefndar af því að hann ræddi um magnaukningu annars vegar sem fer úr 3% upp í 9% og hins vegar um ný lyf sem þó hafa verið í algjöru lágmarki frá hruni. Ég vil spyrja hann um innkaupakerfið og um verðlagningu á þeim lyfjum því að það er ekki minni þáttur í þeim vanda sem við glímum við miðað við önnur Norðurlönd.