141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, eins og hv. þingmaður nefndi er um gríðarlegar upphæðir að ræða. Ef við gerum ráð fyrir að 785 milljónir kr. fari á þennan lið á fjáraukalögum í ár þá skulum við gera ráð fyrir að þær sömu 785 milljónir kr. fari inn á fjárlög næsta árs til að dekka það sem fer í ár. Ef við gerum síðan ráð fyrir að það komi aftur á fjáraukalögum næsta árs eins og hefur gerst undanfarin ár, lengi, þá erum við kannski að tala um að á því tímabili séum við að setja 1,5–2 milljarða inn í aukningu umfram áætlanir.

Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem um er að ræða og fara því miður vaxandi. Eins og ég sagði áðan höfum við í fjárlaganefnd ekki þekkingu til að gera beinar tillögur um hvernig á að standa að innkaupamálum hvað þetta varðar eða verðlagningu á lyfjum. En þetta hefur verið rætt, ekki bara núna heldur undanfarin ár, ítrekað, við ráðuneyti, við velferðarráðuneytið, við Sjúkratryggingar, hvernig í ósköpunum megi bregðast við hinni stigvaxandi aukningu á kostnaði og magnaukningu á lyfjum. (Forseti hringir.) Slíkar tillögur höfum við ekki fengið enn, því miður. Kannski verður að grípa til einhverra ráða til að kreista þær fram.