141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðu hans og tek undir það sem fram kom í máli hans um mikilvægi þess að bæta aga í ríkisfjármálum.

Það var eitt atriði sem stakk mig í ræðu hv. þingmanns sem sneri að því að áætlanagerð Sjúkratrygginga Íslands hefði ekki gengið eftir og hana þyrfti að bæta. Ef ég man rétt og það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar, bæði frá Sjúkratryggingum Íslands og frá fulltrúum velferðarráðuneytisins, að sú magnaukning sem um ræðir hefur ekki verið viðurkennd í fjármálaráðuneytinu. Það hefur verið útskýringin á þeim lið.

Ég kalla eftir því við hv. formann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það sé í raun og veru ástæðan, að það hefur ekki verið viðurkennt í fjármálaráðuneytinu áður en fjárlögin eru lögð fram og bregðast þurfi við með öðrum hætti, þá með niðurskurði á öðrum stöðum ef þetta á að ganga eftir, því að magnaukningin hefur ekki verið viðurkennd í fjármálaráðuneytinu.