141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Til er orðtak sem lýtur að því að hafa matarást á einhverjum. Ég held að það hljóti að fara að styttast í að mér verði færður matarbiti hér í ræðupúltið þegar umræða um fjáraukalög stendur yfir. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég og virðulegur forseti lendum í þessu matarsambandi og kann ég honum bestu þakkir fyrir viðvörunina. Ég skal reyna að ljúka máli mínu á tiltölulega skömmum tíma því að í raun er fljótafgreitt að fara í gegnum þetta í stóru myndinni eins og ég ætla að gera.

Ég mæli fyrir nefndaráliti sem 1. minni hluti fjárlaganefndar, ég og hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, stendur að. Þingskjalið, forseti, er nr. 457, þetta er 153. mál sem við leggjum hér fram, og ég fylgi því úr hlaði með þessum orðum:

Það er alveg ljóst af því fjáraukalagafrumvarpi sem fyrir liggur að ríkisstjórnin hefur kosið að fara ekki eftir þeim aðgerðum sem boðaðar voru og samþykktar sem stefna ríkisstjórnar Íslands og Alþingis um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Fjáraukalagafrumvarpið undirstrikar að enn er verið að hverfa frá þeirri stefnu sem þar var mörkuð og samþykkt.

Fyrir liggur að umtalsverð frávik eru frá upphaflegum áætlunum sem gerðar voru á árinu 2009. Má sem dæmi nefna að niðurstaða ríkisreiknings á árinu 2011, á síðasta ári, sýnir helmingi meiri halla en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þar að auki lá fyrir að upphafleg markmið um jákvæðan frumjöfnuð náðust ekki og slakað var á markmiðum um frumjöfnuð undir lok síðasta árs.

Þetta leiddi meðal annars til þess að stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands og stjórnarmeirihlutinn, tóku þá ákvörðun síðasta haust að slaka á eða fresta markmiðum um heildarjöfnuð um eitt ár og reyna að ná honum árið 2014. Er athyglisvert að skoða rökin fyrir þeirri stefnubreytingu. Þau voru á þann veg að ríkissjóður stæði betur en búist hefði verið við. Ef horft er til niðurstöðu ríkisreiknings árið 2011 og fjáraukalaga nú blasir sú niðurstaða við að sú ákvörðun hafi verið ótímabær. Staðan er einfaldlega önnur og miklu verri en menn gengu út frá síðasta haust.

Staða ríkissjóðs er enn erfið og fullt tilefni til áframhaldandi aðhalds. Fyrir liggur að þung staða Íbúðalánasjóðs endurspeglar ákaflega vel hve erfitt og viðkvæmt ástandið er. Við heyrðum það síðast í fréttum í morgun að til stendur að draga til baka áform sem uppi voru um aukna innspýtingu, væntanlega vegna þess að staðan er alvarlegri en menn ætluðu og rýmri tíma þurfi til að móta tillögur sem taka betur á því ástandi sem skapast hefur í Íbúðalánasjóði og ríkissjóður ber fulla ábyrgð á. Eins og málið liggur fyrir okkur í dag er allt útlit fyrir að bæta þurfi að minnsta kosti 14 milljörðum kr. til viðbótar við það sem áður hafði verið sett inn, eða 33 milljarðar. Þá getum við gert ráð fyrir að það framlag, 14 milljarðar, bætist við þann halla sem fjáraukalögin endurspegla halla upp á um 25 milljarða. Ekkert verður heldur úr áformum um að tekjur af sölu eigna skili ríkissjóði 7,6 milljörðum. Að öllu samanlögðu má því gera ráð fyrir að halli ársins 2012, halli þessa árs, verði um 47–48 milljarðar kr. að teknu tilliti til þessara þátta eingöngu.

Ég vil minna á það fyrir okkar hönd, sem stöndum að þessu áliti, og ítreka að því miður stóð endurskoðuð þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var fyrir nokkrum dögum, ekki undir væntingum fjármálaráðherra um aukinn hagvöxt. Þegar fjármálaráðherra sem þá var lagði fram fjárlagafrumvarpið í byrjun september, fjárlagafrumvarp ársins 2013, vænti hún þess að endurskoðuð þjóðhagsspá gerði ráð fyrir meiri hagvexti en fjárlagafrumvarpið byggði á.

Í ljósi þessa alls er mjög brýnt að setja í forgang á ný þau markmið sem lagt var upp með í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Ríkissjóður má einfaldlega ekki við frekari frávikum frá þeirri stefnu sem þar var mörkuð.

Fyrir liggur að hreinar skuldir ríkissjóðs jukust úr því að vera 85% af landsframleiðslu árið 2010 upp í 100% árið 2011 og það liggur við að nú fari um það bil ein króna af hverjum sex í að þjónusta lánin. Það er staða sem engum hugnast. Hrein peningaleg eign versnaði á milli áranna 2011 og 2012, ef horft er til annars ársfjórðungs, um 117 milljarða kr. Vöxtur skulda ríkisins, ef horft er á þetta í enn stærra samhengi, er hraðari en vöxtur skatttekna. Þetta er veruleikinn sem við blasir og á sama tíma horfum við upp á það að sú litla og takmarkaða fjárfesting sem þó er til staðar er enn langt undir sögulegu meðaltali. Það sjá allir sem vilja horfast í augu við þann veruleika að það ýtir ekki undir hagvöxt heldur skilar sér þvert á móti í enn frekari samdrætti og lægra atvinnustigi og þar með lægri skatttekjum. Þetta var um heildarmyndina.

Ég ætla að stikla á stóru um álit 1. minni hluta fjárlaganefndar. Í framsöguræðu hv. formanns fjárlaganefndar kom fram að það verklag sem viðhaft er við fjáraukalögin er ósköp svipað í ár eins og verið hefur mörg undanfarin ár. Menn verða hins vegar með einhverju móti að komast út úr því verklagi því að fjárreiðulögin kveða mjög skýrt á um það á hvaða fjárveitingum fjárreiðulögin eiga að taka og hvað þau heimila.

Það vekur mig til umhugsunar um það sem kom fram í umræðum fyrr á þessum fundi varðandi þátt Ríkisendurskoðunar í þessu máli. Eins og hér hefur komið fram er þar um að ræða brot á áralangri hefð. Það hefur tíðkast að fjárlög og fjáraukalög hafi fengið hlutlæga umsögn utan frá. Því er hafnað með óljósum rökum og ég álít að um mikla afturför sé að ræða. Þetta er að mínu mati óvönduð vinna og veikir í raun eftirlitshlutverk Alþingis sem ég held að þokkalega góð samstaða sé um að verði styrkt. Gengur það þvert á þá stefnu sem við höfum rætt í nefndinni og viljum halda í heiðri. Ég skora á hv. formann fjárlaganefndar að endurskoða þessa afstöðu.

Ef það verður ekki gert skora ég á Ríkisendurskoðun að nýta sér það sjálfstæði sem hún hefur að lögum og skila Alþingi umsögn sinni um fjáraukalagafrumvarpið og þá stöðu sem við blasir í því ljósi. Ég tel að Ríkisendurskoðun hafi fullar heimildir til að vinna á þann veg og ég beini þeirri eindregnu ósk til stofnunarinnar að hún virði það sjálfstæði sem henni er falið og gert í lögum og nýti þann rétt sem lögin veita henni til að gefa Alþingi upplýsingar.

Vert er að staldra aðeins við annað atriði í þessu efni sem lýtur að upplýsingagjöf til Alþingis og snertir einnig eftirlitshlutverk þess. Þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd í umboði Alþingis alls eiga að mínu mati og okkar í stjórnarandstöðunni að hafa allan rétt til aðgangs að upplýsingum. Okkur hefur í þrígang verið neitað um þær upplýsingar og við neyddumst til að gera sérstaka bókun á fundi fjárlaganefndar varðandi rétt stjórnarandstöðu á hverjum tíma til aðgangs að upplýsingum. Við þurftum að leita til lögfræðisviðs Alþingis til að fá skoðun okkar staðfesta. Niðurstaðan varð sú að fjórðungur þingmanna hefur allan rétt til að fá aðgang að þeim gögnum sem við höfum óskað eftir og nefndinni ber að leita eftir því við viðkomandi stjórnvald. Ég vænti þess að við fáum þær upplýsingar strax eftir helgi. Það er ólíðandi að þær komi ekki fram tímanlega áður en fjáraukalögin eru afgreidd.

Það er gjörsamlega ólíðandi að Alþingi geti ekki unnið vinnu sína út af því að meiri hlutinn komi í veg fyrir að stjórnarandstaðan ræki lögbundið hlutverk sitt, því að aðgengi að upplýsingum er breytilegt og meiri hluti hverju sinni hefur rýmri aðstæður til að afla sér upplýsinga út frá þeirri skipan sem við höfum á hlutunum í dag. Það er kallað meirihlutaræði þegar meiri hlutinn gengur yfir stjórnarandstöðuna með því að meina henni um aðgang að upplýsingum. Það er verklag sem ég vil hvergi sjá stundað.

Það vekur líka athygli í fjáraukalagafrumvarpinu að allar tillögur ríkisstjórnarinnar til útgjaldabreytinga, hvort heldur það er til hækkunar eða lækkunar, eru teknar hráar og kokgleyptar af stjórnarmeirihlutanum í fjárlaganefnd og hann gerir þær að sínum. Einu breytingarnar sem gerðar eru eru á óskum Alþingis um útgjöld, þeim er breytt og þær eru lækkaðar, ekki orðið við þeim. Þetta er verklag sem ég tel að við getum ekki stundað þegar við erum að reyna að fikra okkur inn í þann veruleika að herða tök Alþingis á fjármálum ríkisins og fjáraukalagagerð. Við getum ekki verið með þennan bútasaum, þ.e. að byrja fyrst á þinginu en taka allt hrátt sem kemur frá ríkisstjórninni vegna þess að þar er um að ræða stóran hluta þeirra tillagna sem óskað er eftir að Alþingi samþykki, að þær gangi þannig að orðið sé við þeim öllum saman.

Ég vil að lokum, forseti, nefna hér almennt þau gjöld sem lögð eru fram í fjáraukalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Á bls. 54 er fullyrt að þar sé almennt ekki að finna tillögur um ný verkefni eða aukið umfang heldur fyrst og fremst útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er í besta falli hálfsannleikur. Það er einfaldlega ekkert sem gefur tilefni til að ríkisstjórn Íslands leggi fram frumvarp með þessum texta. Það liggur einfaldlega fyrir að fjöldi fjárbeiðna í frumvarpinu uppfyllir ekki þau skilyrði sem þessi texti tiltekur og það er ólíðandi og í besta falli vafasamt að birta hann með þessum hætti. Það segir hins vegar töluvert mikið um hvernig ríkisstjórnin umgengst Alþingi í frumvarpssmíð sinni. Það er mikil óvirðing að ætlast til þess að Alþingi gleypi við þeim rangfærslum sem ríkisstjórnin heldur þarna fram.

Með þeim orðum læt ég lokið tali mínu, þessari ræðu, og vænti þess að við gerum matarhlé fljótlega.