141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja svolítið að svokallaðri fjárfestingaráætlun, sem fjallað er um í frumvarpinu sem hér er verið að ræða, og kynnt var með pompi og pragt fyrir blaðamönnum í morgun. Ef marka má fréttir verður rúmum 6 milljörðum kr. varið í sérstök verkefni sem fjármála- og efnahagsráðherra virðist hafa kynnt ásamt varaformönnum stjórnarflokkanna í morgun. Áður hefur svo verið gert ráð fyrir 4 milljörðum kr. í sambærileg verkefni, þ.e. í sérstök verkefni sem svo eru kölluð. Yfirlýst markmið með þessu, ef marka má frumvarpið sem hér liggur frammi, er aukin fjárfesting. Þar hlýtur að vera átt við opinbera fjárfestingu.

Nú er verulegur halli á ríkissjóði. Það liggur fyrir að ríkið er stórskuldugt, svo skuldugt að nemur allri verðmætasköpun í landinu eða um 100% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar er ágætt að hafa í huga að samkvæmt svokölluðum Maastricht-skilyrðum, sem Evrópusambandið setur sem skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið og ríkisstjórnin horfir nú vonaraugum til, geta skuldir ríkissjóðs ekki verið meira en 60% af vergri landsframleiðslu. Skuldir íslenska ríkissjóðsins nema 100% af vergri landsframleiðslu.

Menn mega alveg vita að fyrirætlanir um 10 milljarða í sérstök verkefni, sem eru reyndar ekki vel skilgreind hjá fjármálaráðherra, standast ekki til lengri tíma. Þessi fyrirheit munu ekki standast. Ef þessar fyrirætlanir ganga eftir verður þetta skorið niður.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í morgun ræddi fjármála- og efnahagsráðherra nokkuð um fjárfestingar eða opinber framlög til tiltekinna greina. Það er enn og aftur dæmi um að stjórnmálamenn virðist vera farnir að trúa því, ég held að þeir trúi því bara hreinlega, að hægt sé að velja úr einstakar atvinnugreinar, búa til einhvers konar sigurvegara á markaðnum og púkka undir þá með ýmsum hætti. Þannig halda þessir stjórnmálamenn að hægt sé að smyrja hjól atvinnulífsins og auka verðmætasköpun í landinu. Þetta er auðvitað barnaleg nálgun. Það er nefnt að hver króna skili sér, ýmist sjöfalt, tífalt eða tuttugufalt. Menn tala þannig mjög barnalega um ríkisaðstoð eins og um sé að ræða einhvers konar peningavél sem bara búi til peninga. Maður spyr sig: Af hverju eru þá einungis settir 10 milljarðar í verkefnin, af hverju ekki 20? Af hverju eru ekki bara öll fjárlögin sett í þessa peningavél sem virðist vera til? Það er auðvitað ekki þannig.

Ég legg til að ef þeir 10 milljarðar sem hér um ræðir eru virkilega til verði þeir notaðir til að greiða niður skuldir svo að vaxtakostnaður lækki. Það væri peningavél. Þá væri verið að leggja peninga í eitthvað sem kemur til baka. Með því móti værum við kannski að forða því að taka þurfi frekari lán hjá komandi kynslóðum.