141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er tvennt sem mig langar til að minnast á í því sambandi. Í fyrsta lagi var spurt hvort stjórnvöld hefðu einhverjar áætlanir uppi um það hvernig á að draga úr útgjöldum. Það blasir samt við að tekist hefur að draga úr útgjöldum á þessu kjörtímabili fyrir dálítið á annað hundrað milljarða króna. Við öfluðum reyndar tekna upp á svipaða upphæð, um 118 milljarða ef ég man rétt, sem mér skilst að hv. þingmaður og hennar flokkur á Alþingi hafi í hyggju að kalla til baka sem þýðir þá niðurskurð sem því nemur til viðbótar. Það blasir við að nánast hefur verið lyft grettistaki í að draga úr útgjöldum hér á landi á undanförnum árum.

Í öðru lagi ræddi hv. þingmaður um vaxtagjöldin sem er vissulega rétt hjá hv. þingmanni. Það er tvennt í því sem ég vil nefna. Vextir breytast og það hefur áhrif á vaxtagjöld, ýmist til aukinna eða minni útgjalda en gert hefur verið ráð fyrir. Það er erfitt að sjá fyrir hvernig vextir þróast á markaði í upphafi árs. Þetta er algilt og á ekkert sérstaklega við um árið í ár.

Varðandi það að greiða niður lánin á Norðurlöndunum voru tvær meginástæður fyrir því, þ.e. að greiða þau niður og lækka í leiðinni gjaldeyrisvaraforðann hér á landi. Við sitjum þá ekki uppi með jafnháan gjaldeyrisvaraforða og ber að taka tillit til þess að hann var færður niður til jafns við þetta. Í öðru lagi fjármagnar ríkið sig líka á markaði erlendis til að það sé þá einhver viðmiðun fyrir til dæmis stór íslensk fyrirtæki og önnur sem eru að fjármagna sig á markaði erlendis um á hvaða kjörum hægt er að lána þeim. Það fer eftir þeim kjörum sem ríkið fengi.