141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[17:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að þær fréttir hafi ekki borist til landsins að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé orðið ónýtt. Þetta eru örugglega stærstu fréttir dagsins og þær hafa ekki borist um internetið þannig að það er kannski skip á leiðinni með þessar fréttir til að styðja það sem hv. þingmaður, formaður velferðarnefndar (Gripið fram í: Fyrrverandi.) — fyrrverandi formaður velferðarnefndar, upplýsir alþjóð um, að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé ónýtt, hvorki meira né minna. Til upplýsingar þá er heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð skipt upp eða því stjórnað eftir kommúnum þannig að það er svolítið mismunandi, eða var það síðast þegar ég vissi, en ég vissi ekki betur en að það væri til mikillar fyrirmyndar og að almennt litu menn til þess eins og heilbrigðiskerfis annars staðar á Norðurlöndum, alla vega síðast þegar ég skoðaði OECD-tölur var ekki hægt að sjá annað. Síðan eru ýmsar útfærslur í kommúnunum eins og annars staðar og menn hafa hvergi í heiminum náð fullkomnun en ég held að það sé eitthvað í að það muni gerast. En látum það liggja milli hluta.

Ég spurði hv. þingmann út í tilvísanakerfið. Ef við erum með tilvísanakerfi þá þýðir það að allir þurfa að fara í gegnum heimilislækni. Ég þarf stundum að nota heimilislækni og fjölskyldan mín, eins og aðrir Reykvíkingar, og ég veit alveg hvað það tekur langan tíma, þó þurfum við ekki að gera það ef við ætlum að sækja einhverja sérfræðiþjónustu. En ef það væri tilvísanakerfi, hvort sem það væri valkvætt eða ekki, mundi aukast mjög álag á þessa fáu heimilislækna sem hér eru. Við vitum líka að það vantar heimilislækna úti á landi. Einnig hafa menn miklar áhyggjur af því að þeir séu almennt komnir á aldur því að það hefur verið allt of lítil endurnýjun. Ég spyr hv. þingmann því aftur: Hefur hún engar áhyggjur af því ef við tökum upp tilvísanakerfi að það kæmi niður á þjónustunni og mundi lengja enn meira biðina eftir þjónustu heimilislækna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu?