141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

húsaleigubætur.

49. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Virðulegur forseti. Þetta mál lætur lítið yfir sér, það er einungis tvær greinar og snýst eiginlega bara um lagatæknilega séð að setja punkt á annan stað en nú er í 5. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. En þótt það láti lítið yfir sér varðar það fullt af fólki.

Nú um stundir eru um það bil 900 stúdentar á biðlista eftir því að komast á stúdentagarða. Þessir stúdentar þurfa að bjarga sér á almennum leigumarkaði og þar er ástandið ekki beysið. Einna helst er framboð af stóru húsnæði sem stúdentar geta leigt saman, en það ríkir mikið ófremdarástand í þessum efnum. Það er verið að byggja stúdentagarða en mér reiknast svo til að þeir muni ekki nægja til að mæta allri þessari þörf og þörfin vex. Það voru 600 stúdentar á biðlista fyrir ári, nú eru þeir um það bil 900.

Þetta frumvarp snýst um að gera það minnsta sem við getum þó gert og það er að opna fyrir það í lögum um húsaleigubætur að stúdentar sem leigja saman á almennum markaði fái húsaleigubætur. Núna eru ekki greiddar húsaleigubætur ef fólk deilir aðgangi að eldhúsi og baðherbergi, nema það leigi á stúdentagörðum. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þetta skilyrði verði tekið út og opnað fyrir það að stúdentar sem deila eldhúsi og baðherbergi á almennum markaði fái greiddar húsaleigubætur.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir mjög stóran hóp og breytingin er einföld. Ég lagði þetta frumvarp fram á síðasta þingi og velferðarnefnd fór yfir málið og samþykkti einróma að það skyldi verða að lögum óbreytt. Það er hins vegar sorglegt að það gerist ítrekað hér í þinginu að góð mál og mikilvæg fyrir fjölda fólks kafna í málþófi í þinglok. Þetta var eitt af þeim. Í júní var hér ófremdarástand í þinglok, eins og svo oft áður, og fullt af góðum málum, þar á meðal þessu, sem nefndir voru búnar að vinna og vörðuðu lífsviðurværi og hagsmuni fjölda fólks, var ýtt út af borðinu.

Ég geri því aðra tilraun, vandinn hefur bara vaxið síðan þá. Ég legg til að málinu verði vísað til velferðarnefndar og vonast til að nefndinni verði ljúft og skylt að samþykkja það óbreytt aftur.