141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

267. mál
[16:26]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr um ágreiningsefnin sem komið hafi fram. Ég hef þau ekki upptalin hjá mér. Sérstök nefnd tekur við slíkum athugasemdum og fjallar um þau eða þá samstarfshópur þar sem allir aðilar eru við borðið. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, Alþingi á að sjálfsögðu að fylgjast með og sjá hvernig gengur. Þar hafa komið mál eins og hvernig greiðslum var háttað á fyrsta ári þar sem sveitarfélögin töldu að einn mánuður hefði týnst, það er dæmi um stórt mál sem komið hefur upp. En annað hefur svo verið í skoðun og yfirleitt verið leyst farsællega á milli aðila. Öðrum málum er vísað inn í áætlun fyrir 2014 af því að þá á uppgjörið að vera. Sumt af því sem við áætluðum hefur ekki gengið eins og reiknað var með í upphafi.

Segja má Alþingi það til hróss að þegar upphaflega var farið af stað með yfirfærslu var reiknað með því að gera það á pari með óbreyttri starfsemi til að byrja með fram til 2014. Alþingi tók af skarið og bætti við. Við höfum fengið réttindagæsluna, við erum með NPA og fleiri þætti sem komu inn við umfjöllun þingsins og gerðu auknar kröfur, þeir hafa verið fjármagnaðir ágætlega af þinginu.

Hér er rætt hvort hægt sé að fara að vinna strax að framkvæmdaáætlun til lengri tíma. Það er auðvitað álitamál af því að við þurfum að vinna áætlunina með sveitarfélögunum vegna þess að þau hafa tekið yfir málaflokkinn og bera ábyrgð á honum. Þá þurfum við, aðilar málsins, auðvitað að vinna það í takt svo við ávísum ekki verkefnum hver á annan. Komið hefur fram sú gagnrýni á framkvæmdaáætlunina að hún sé ekki fjármögnuð að öllu leyti vegna þess að sveitarfélögin eigi að gera sumt af því sem þar er. Úr því vinnum við eins og öðru.

Varðandi upphæðina á næsta ári er bæði búið að fjármagna vinnu við innleiðingu á mannréttindasáttmála fyrir fatlað fólk frá Sameinuðu þjóðunum og önnur verkefni um 14 millj. kr., þannig að við förum myndarlega af stað með þau verkefni sem eru í framkvæmdaáætluninni.