141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða spurningu.

Það er til dæmis ákvæðið sem ég gagnrýndi mjög í Icesave-samningunum sem fól í sér framsal á dómsvaldi. Þarna er þetta valdaframsal ekki bara löggjafarframsal komið inn í stjórnarskrá Íslands. Ef við lesum þessi drög eða þetta frumvarp snýr það mjög mikið að því að laga okkur að Evrópusambandinu. Það var líka svolítið merkilegt að þegar þetta kemur fram og þetta lögfræðingateymi las þessa grein yfir taldi það að frekar langt væri gengið í þessum málum því að við þyrftum jafnvel bara meiri hluta alþingismanna til að framselja vald okkar að litlu leyti, t.d. með eina og eina tilskipun. En þarna er lagt til að þetta feli í sér framsal ríkisvalds að því leyti að einfaldan meiri hluta þurfi á Alþingi og svo þjóðaratkvæðagreiðslu á milli. Þarna getur stemmning (Forseti hringir.) samfélagsins leitt til þess að við getum til dæmis gengið í Evrópusambandið með litlum meiri hluta landsmanna sem dæmi.