141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki mjög langt síðan við þingmenn sátum og ræddum í mikilli alvöru um að setja þinginu tilteknar siðareglur. Eitt af því sem þar kom fram var að við ættum í fyrsta lagi að reyna að sýna virðingu gagnvart þeim málum sem við værum að fjalla um og virðingu gagnvart öðrum þingmönnum.

Nú hef ég ekki fylgst nægilega vel með umræðunni í dag til að geta dæmt um hvort hún hafi uppfyllt að minnsta kosti þau skilyrði og viðmið sem þingmenn voru mjög duglegir við að setja hátíðlega fram í þessari vinnu. En við erum að ræða um stjórnarskrá Íslands og verðum að gera gríðarlegar kröfur til okkar um að þessi umræða sé málefnaleg og menn noti hana ekki sem einhvers konar vettvang fyrir köpuryrði úti í þjóðfélaginu í garð einstakra þingmanna sem geta ekki varið sig við slíkar aðstæður. Ég veit ekki hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Ég er sennilega einn af þeim örfáu Íslendingum sem eru ekki á Facebook þannig að ég hef ekki möguleika til að fylgjast með því, en hitt veit ég að við eigum að reyna að gæta hófs og ræða málið efnislega. Stjórnarskráin okkar verðskuldar það.