141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:49]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst hvað framsóknarmenn vilja í þessu sambandi. Við höfum ályktað um íslenskt mál á flokksþingi okkar og þar segir: „Styrkja þarf mun frekar íslenska tungu, viðhald tungumálsins og þróun.“

Við viljum alls ekki að íslenskan lendi í hinum stafræna dauða, það kemur ekki til greina, en að sjálfsögðu höfum við áhyggjur af stöðunni. Við sjáum að börn og unglingar hrærast í enskumælandi heimi netsins og tölvuleikja. Þeir sem hafa skoðað þessi mál átta sig á því.

Málnefnd setti fram ekki alls fyrir löngu atriði um hvert ætti að beina kröftum sínum varðandi málnotkun á Íslandi. Þar voru sett í fyrsta sæti börn og unglingar, síðan fyrirtæki og stofnanir og svo innflytjendur. Því er ljóst að börn og unglingar eru aðalhópurinn sem við eigum að beina kröftum okkar að.

Ég held að við sem eigum börn og unglinga heyrum að enskan hefur mikil áhrif á þau og ljóst er að enskuslettur hafa komið inn í málið í ríkari mæli en við viljum. Og málnotkun er fátæklegri en áður.

Við eigum þó ekki að vera með miklar dómsdagsspár. Ég vil minna á að á sínum tíma taldi málfræðingurinn Rasmus Christian Rask, og það var haustið 1813, að Íslendingar mundu ekki skilja íslensku að hundrað árum liðnum heldur yrðu þeir meira eða minna talandi dönsku, en það er aldeilis ekki svo tvö hundruð árum síðar. Við skulum ekki vera of svartsýn en ég tel mjög brýnt að við eflum tungumálakennslu á Íslandi og ekki bara íslenskukennslu heldur líka tungumálakennslu á norrænum málum.

Ljóst er að (Forseti hringir.) þeir sem þekkja vel tungumál sitt geta betur lært erlenda tungu og (Forseti hringir.) síað út góða málnotkun. (Forseti hringir.) Ég fagna því þessari umræðu og tel að við eigum að hafa varann (Forseti hringir.) á okkur í þessu sambandi.