141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á yfirlýsingum forustumanna úr atvinnulífinu annars vegar og hins vegar forustumanna Alþýðusambands Íslands um stöðuna í kjaramálum. Það er augljóst að sú krafa er uppi af hálfu Alþýðusambandsins, og fyrir því hefur forseti þess talað, að það þurfi hér að hækka laun til að mæta verðlagsþróun.

Á sama tíma liggur það fyrir að síðustu kjarasamningar voru mjög ríflegir og byggðu á því að hagvöxtur yrði umtalsvert meri en raun varð á. Kjarasamningar sem eru umfram hagvöxt, sem er ekki innstæða fyrir, kalla á hækkun verðlags. Það var einmitt það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði við í skýrslu sinni, það er hinn forni fjandi víxlverkan launa og verðlags.

Nú hafa menn heyrt yfirlýsingar forustumanna Alþýðusambands Íslands og þær ber að taka alvarlega. Það ber að taka það alvarlega þegar forseti ASÍ talar með þeim hætti sem hann hefur gert, og það er alvarlegt mál fyrir okkur ef verðbólgan fer aftur af stað. Það þýðir að Seðlabanki Íslands mun hækka stýrivexti sína, eins og reyndar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur mælt með. Það mun þýða að það verður pressa m.a. á þau heimili sem tekið hafa lán með breytilegum vöxtum, óverðtryggð lán, þau munu horfa upp á afborganir sínar hækka hratt þar af leiðandi. Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin taki mark á þessum yfirlýsingum og breyti efnahagsstefnu sinni þannig að það verði hér innstæða fyrir kjarabótum.