141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst þar koma fram tónar sem ég átti kannski ekki von á og þykist vita að ef hv. þingmaður væri að tala bara fyrir sjálfan sig og sín borgaralegu gildi, þar á meðal þann konservatisma sem hann kennir sig við, mundi hann ganga enn lengra en hann treystir sér til að gera sem framsögumaður nefndarálits á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Það sem ég fagna einkum er að það er skýrt eftir þetta nefndarálit 2. minni hluta og ræðu framsögumannsins að hann telur að af þeim fimm verkþáttum sem lokið er hafi fjórir farið fram með faglegum og ábyggilegum hætti og síðan er ágreiningur, a.m.k. á milli okkar, um fimmta verkþáttinn. Það þýðir að hv. þm. Birgir Ármannsson og hv. þm. Árni Johnsen og væntanlega allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, því að þetta hlýtur að hafa verið gert í einhvers konar samráði, eru sammála tillögum formannahópsins sem birtast síðan aftur í tillögum ráðherranna um verndarsvæðin 20. Ég fagna því sérstaklega að Sjálfstæðisflokkurinn er sammála okkur hinum á þingi um að Torfajökulssvæðið sé sett í verndarflokk, að Gjástykki sé í verndarflokki, að Þjórsárver öll séu í verndarflokki á kostnað hugmyndarinnar um Norðlingaölduveitu, að Jökulsá á Fjöllum sé í verndarflokki, að Bitra eða Ölkelduháls og fleiri verðmætir og mikilvægir blettir á Hengilssvæðinu séu í verndarflokki og að Kerlingarfjöll séu í verndarflokki. Þetta er mikill árangur. Það eru miklar sættir sem hér hafa tekist um þetta.

Síðan tek ég eftir því að hv. þingmaður og flokkur hans eru ósáttir við að sex kostir eru settir í biðflokk og að af þeim sökum, ef ég skil þingmanninn rétt, vill hann setja alla þessa 67 kosti aftur til verkefnisstjórnar sem hefur lokið störfum. Það er væntanlega til þess að hún geti fjallað betur um málið en hv. þingmanni til gagns get ég sagt að tillaga hans er í raun og veru að þessu gefnu sú sama (Forseti hringir.) og tillaga ráðherra, þ.e. tillaga ráðherrans gengur út á að þeir sex kostir sem um er að ræða fari einmitt til nýrrar verkefnisstjórnar sem er skipuð til að geta tekið afstöðu (Forseti hringir.) til þeirra og komið aftur inn á þingið með sérstakri dagsetningu sem nefnd er í tillögunni.