141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu áðan. Til að byrja með nefndi hv. þingmaður frumjöfnuð og heildarjöfnuð sem mér finnst rétt að halda til haga, staðreyndum í því. Frumjöfnuður, þ.e. jöfnuður í ríkisrekstrinum fyrir utan vaxtatekjur og vaxtagjöld, var neikvæður upp á 43 milljarða í fyrra, á árinu 2011. Hann verður jákvæður í ár upp á 32 milljarða kr. og í fjárlagafrumvarpinu sem við fjöllum um núna er gert ráð fyrir að frumjöfnuður verði jákvæður um 60 milljarða á næsta ári, sem eru 3,2% af vergri landsframleiðslu. Heildarjöfnuðurinn sem var neikvæður um 216 milljarða kr. árið 2009, reiknað er með að hann verði rétt innan við 3 milljarða í mínus á næsta ári, sem er rétt um hundraðasti hluti af því sem þá varð.

Í framhaldi af því sem hv. þingmaður nefndi áðan varðandi fjárfestingaráætlun sem ég átta mig ekki alveg á, mig langar til að fá nánari skýringu á því. Er hv. þingmaður í heildina séð andsnúin þeim verkefnum sem þar eru tilgreind, rétt eins og þau sem hv. þingmaður nefndi og tiltók sérstaklega, eða er hún í heildina andsnúin áætluninni sem slíkri? Ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi einhvers konar skóflustungufjárfestingaráætlun, eitthvað slíkt, og nær hefði verið að eyða þessu í innviðina, sem er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Hluti af henni er til dæmis innviðir í samgöngumálum á Austfjörðum, þ.e. að tengja saman firði, Norðfjörð og Eskifjörð, það er stór hluti af þessari fjárfestingaráætlun. Er hv. þingmaður í heildina andsnúin fjárfestingaráætluninni, tekjuöfluninni sem á að knýja hana áfram eða getur hv. þingmaður fellt sig við einstaka þætti þar inni?