141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:55]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf gagnlegt og fróðlegt að hlusta á hv. þingmann fjalla um hin ýmsu mál af langri reynslu héðan og úr atvinnulífinu. Það var ágæt samlíking hjá þingmanninum með velferðarnetið og möskvana, ýmislegt fellur þar út sem ekki ætti að gera. Þingmaðurinn rakti í nokkrum atriðum mistakaslóð fortíðar sem við þurfum að læra af, bæði hvað varðar umfang ríkisrekstrar og ríkisábyrgðir. Hann varpaði fram áhugaverðum lausnum á málefnum Íbúðalánasjóðs og húsnæðislánamarkaðarins sem hlýtur að verða tekinn til gagngerrar endurskoðunar í ljósi sögu síðustu tíu ára. Það kallar á uppbrot í þeim málum og ég veit að hv. þingmaður hefur margt mjög uppbyggilegt og gagnlegt að leggja til málanna þar. Vonandi gefst okkur tækifæri til þess á þessu þingi að leggja einhverjar línur í því sem hægt er að ræða í kosningabaráttunni í vor og halda svo áfram að vinna með á þinginu eftir kosningar.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að einu sem tengist ræðu hans og umfjöllun um ríkisfjármálin og fyrirkomulag þessara mála allra til langrar framtíðar, það er fyrirkomulag gjaldmiðilsmálanna. Þingmaðurinn talaði um þá hengju sem hér er inni út af krónubréfum o.fl. Hvernig sér hv. þingmaður af góðri og langri reynslu það fyrir sér að við högum þeim málum? Getum við búið við sjálfstæðan, hugsanlega fljótandi, gjaldmiðil aftur? Leiðin frá höftum, verðtryggð lán og óverðtryggð lán — því er varpað fram sem patentlausn að það að afnema verðtryggingu af öllum lánum sé búið að leysa vandamálið sem er náttúrlega mikill misskilningur af því að þá situr eftir handónýtt fyrirkomulag peningamála í óverðtryggðum lánum o.s.frv.

Ef þingmaðurinn vildi varpa fram örlitlu broti af sinni sýn í þessum málum sem skipta langmestu máli þegar rætt er um ríkisfjármál í bráð og lengd.