141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það hafi verið hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem nefndi í ræðu sinni fyrr í dag að það hefði komið fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að m.a. nokkrar ráðstefnur hefðu verið slegnar út af borðinu vegna þessa frumvarps sem við ræðum hér. Einnig vegna þeirra óljósu markmiða og glannalegu yfirlýsinga sem ríkisstjórnin hefur verið með er snertir grundvöll þessarar atvinnugreinar, enda er það kannski eðlilegt. Hvernig áttu menn, eins og núna á þessu hausti, sem voru að reyna að skipuleggja ferðir og halda utan um stórar ráðstefnur, að verðleggja slíkt? Menn höfðu ekki hugmynd um hvort skattlagningin yrði 25,5% eða 7%, núna er hún 14%. Það er ekki hægt að bjóða heilli atvinnugrein upp á þennan hringlandahátt og það er ekkert óeðlilegt í ljósi þessa alls að menn hafi orðið af einhverjum þúsundum ferðamanna sem hefðu komið hingað til landsins í tengslum við umræddar ráðstefnur. Þar með erum við að tapa peningum. Við erum að tapa gjaldeyrisskapandi störfum vegna þess að ríkisstjórnin kemur fram með óábyrgum hætti þegar kemur að þessari atvinnugrein.

Hv. þingmaður var að tala um Siglufjörð sem er bærinn okkar beggja, þar hefur athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson staðið fyrir heilmikilli uppbyggingu í ferðaþjónustu á undangengnum árum. Þar stendur til að reisa glæsilegt hótel núna vonandi innan tíðar, ég vona að þessi áform muni ekki breyta einhverju í því. Það fyrirtæki hefur held ég ekki verið neitt sérstakt gróðafyrirtæki fram til þessa. Það er búið að verja heilmiklum fjármunum í uppbyggingu ferðamennsku á Siglufirði og það hefur skilað því að bæjarbragurinn er allt annar. Þar er glæsilegt samfélag og sú þróun sem hefur átt sér stað í ferðamennskunni hefur skipt Siglufjörð miklu máli (Forseti hringir.) og sama má segja um fjölmarga aðra staði á landinu. Vonandi munum við ekki koma í veg fyrir þá þróun með því að samþykkja þetta frumvarp.