141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, sérhver flæking og nýr skattur kallar á breytingar á tölvukerfum. Þær breytingar eru ekki ókeypis og þær gerast ekki allt í einu. Þetta kostar allt tíma og orku hjá atvinnugreininni og gefur ekkert af sér fyrir þjóðarbúið. Þess vegna held ég að hv. nefnd sem fær þetta mál aftur, hún er búin að fjalla um það einu sinni, ætti virkilega að skoða hvort hægt sé að fara einhverjar aðrar leiðir en að bæta við nýju þrepi í virðisaukaskattinum, hvort kannski mætti gera hann eitthvað almennari og taka einhverjar undanþágur í burtu. Það er töluvert af undanþágum í ferðaþjónustunni þar sem menn borga ekki virðisaukaskatt. Þar nefni ég laxveiðileyfi og sitthvað fleira sem ég held að hv. nefnd ætti kannski að skoða að setja undir þetta og sjá hvort menn fái ekki jafnmiklar tekjur í ríkissjóð. Markmiðið er að ná tekjum í ríkissjóð, ekki að klekkja á ferðaþjónustunni, ég trúi því ekki.

Ég minni á að það kom einnig fram í morgun að gistináttagjaldið sem var lagt á kostar óhemjumikið í rekstri og gefur sáralitlar tekjur. Við getum lent í þeirri stöðu að það kosti meira að innheimta skatt en hann gefur. Þá er betra heima setið en af stað farið og ég held að hv. nefnd ætti virkilega að skoða það þegar hún fær þetta til umfjöllunar og sendir til umsagnar að reyna að halda flækjum í virðisaukaskattskerfinu innan skynsamlegra marka.