141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem við höfum nú starfað saman í þinginu í hátt á fjórða ár langar mig að taka upp einn lið í tekjufrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Mig langar að minna þingmanninn á umræðuna sem við áttum fyrir síðustu jól varðandi kolefnisgjaldið sem sett var á. Hér eru lagðar til breytingar á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Þegar það kolefnisgjald var lagt á veltum við því fyrir okkur, nokkrir þingmenn, hvers vegna þetta væri lagt á flugið. Til stóð að leggja þetta bæði á innanlandsflugið og millilandaflugið en ég varaði mjög við því, taldi að það bryti gegn Chicago-samningnum sem bannar skattheimtu eins ríkis í millilandaflugi. Það hefur komið á daginn að það gerði það og nú er innanlandsflugið eitt með þennan kostnað.

Grunnstef skattkerfisins er það, og það er varið í stjórnarskrá, að ekki megi tvískatta sömu tekjur eða sömu innkomu. Nú birtist það í frumvarpinu að ríkisstjórnin hafði rangt fyrir sér þegar kolefnisgjaldið var lagt á því að 1. janúar 2012 féll innanlandsflug undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins og þá sér ríkisstjórnin sig knúna til að leggja af kolefnisgjaldið sem lagt var á innanlandsflugið því að annars hefði greinin lent í tvísköttun. Þar sem þingmaðurinn kemur úr landsbyggðarkjördæmi vil ég benda á að samt er verið að skattleggja innanlandsflugið eingöngu en í framtíðinni verður millilandaflugið að vísu skattlagt að einhverju leyti líka. En hvað finnst þingmanninum um þann hringlandahátt sem birtist í tekjuöflun hjá þessari ríkisstjórn?