141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er alveg ómögulegt þegar verið er að hringla svona í sköttunum. Það eru fleiri dæmi þarna, eins og afdráttarskattarnir á erlendum aðilum sem er loksins verið að afnema núna. Hringlað hefur verið með það. Það versta er að úr ræðustól Alþingis og í þingnefndum var farið nákvæmlega yfir þetta. Farið var yfir þau rök hvers vegna ekki er hægt að hringla svona í sköttum. En vandamálið er að ekki er hlustað á neinn. Menn þykjast hafa einhvers konar alræðissýn eða alsýn á hlutina og hafi ávallt rétt fyrir sér og geta ekki viðurkennt staðreyndir né skoðanir annarra, sama hver bendir á það. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þetta skattahringl er farið að há okkur mjög mikið. Það er líka alveg með eindæmum að því skuli alltaf vera hent hérna fram á haustin, einhverjum hræðilegum sögum lekið út um ógurlega skatta, verið er að prófa, svo er dregið í land. Síðan koma fram skattafrumvörp og þá eru aðeins hóflegri skattahækkanir og svo endar þetta yfirleitt alltaf í hausnum á ríkisstjórninni. Og svo næsta ár eða þarnæsta ár er það afnumið aftur vegna þess að menn sjá að allar þær viðvaranir sem voru settar fram voru réttar.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við þessu. Það eina sem ég get bent ríkisstjórninni á (Forseti hringir.) er að hún er komin á lista með þjóðum sem við eigum ekki að vera á lista með um pólitíska óvissu vegna svona háttalags.