141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hugsa að við höfum sérstaka umræðu hér á næstu dögum um Framsóknarflokkinn og hvernig ríkisstjórn væri í landinu ef hann væri þar innan borðs. Ég get alla vega sagt að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei staðið að því verklagi sem við ræðum hér. Þetta er náttúrlega alveg með hreinum ólíkindum.

Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að bókanir hjá Icelandair-hótelum eru nú 15% færri en á sama tíma fyrir ári, sem gefur ákveðnar vísbendingar um það að mínu viti að þau skilaboð sem ríkisstjórnin hefur sent út, um starfsskilyrði atvinnugreinarinnar hér á landi og yfirvofandi hækkanir á gistingu, eru strax farin að hafa áhrif.

Nú sjáum við á bls. 9 í frumvarpinu áætlanir um hverju þessar skattahækkanir eigi að skila ríkissjóði í auknum tekjum. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt því fyrir sér hvað þessi hringlandaháttur og þessi fyrirhugaða aukna skattheimta hafi skaðað ferðaþjónustuna mikið og þar með tekjur ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og þeirra sem vinna hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í landinu. Ég tel nefnilega að við getum ekki endalaust hækkað skatta og gjöld og álögur á atvinnulífið og heimilin í landinu, einhvers staðar er sá skurðpunktur þegar of langt hefur verið gengið og að mínu viti er verið að ganga allt of hart fram hér.

Er hv. þingmaður sammála mér í því að sá ávinningur sem talinn er upp af skattahækkunum í frumvarpinu sé ekki hreinn ávinningur, að það sé önnur hlið á þessu máli sem feli í sér að með hækkuðum sköttum og gjöldum verði minni framkvæmdir og uppbygging í atvinnugreininni og þar með skapist færri störf? Þurfum við ekki að skoða þá hlið málsins líka í þessari umræðu?