141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:07]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. stjórnarþingmann, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, út í jafnræði í skattheimtu sem hún minntist á í ræðu sinni. Hún talaði um jafnræði í ferðaþjónustunni og á milli sjávarútvegsins og annarra atvinnugreina. Við þekkjum öll veiðileyfagjaldið sem setur nú fyrirtæki á hliðina. Síðast í dag fengum við fréttir af því að 27 einstaklingar misstu vinnuna vegna þess að síauknar byrðar eru lagðar á fyrirtækin.

Á sama tíma boðar ríkisstjórnin og fulltrúar hennar hækkun á heiðurslistamannalaunum 27 einstaklinga upp á 126%, alls 80 millj. kr. Er samræmi þarna á milli hvað forgangsröðun varðar? Er samræmi á milli atvinnugreina og er það í takt við þá stöðu sem við erum í í dag? Við vitum líka að tóbaksgjaldið er að sliga heimilin og bara það eitt mun hækka skuldir heimilanna um 3 milljarða kr. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um það?