141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

lengd þingfundar.

[10:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þannig að það sé alveg á hreinu tek ég fram að við erum ekki að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið [Kliður í þingsal.] heldur um lengd þingfundar.

Ég geri athugasemd við að verið sé að taka ákvörðun um kvöldfund. Ég tel ekki nokkra ástæðu til þess. Það er engin sú staða uppi sem kallar á kvöldfund hér í kvöld. Ég held að það sé betra og skynsamlegra að við fundum samkvæmt hefð hvað varðar tíma vegna þess að góð þátttaka í þingstörfunum skiptir máli, það sé ekki verið að funda langt fram á kvöld og jafnvel inn í nóttina. Það skiptir máli að það sé vönduð umræða um lagafrumvörp og villuhættan eykst á þinginu ef menn sperra sig sýknt og heilagt langt inn í nóttina.

Við höfum séð svoleiðis fundi að undanförnu. Ég tel enga ástæðu til að grípa til slíkra funda þegar ekki er sérstök ástæða til. Það er ekki sérstök ástæða til að lengja þennan fund, virðulegi forseti.