141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín prinsippafstaða er sú að lúta eigi þeim reglum sem gilda um aldurstakmörk á vinnumarkaði, sér í lagi þegar atvinnuleysi er mikið í landinu. Það á kannski ekki við um þá aðila sem þetta frumvarp fjallar um, að hægt sé að ráða hæstaréttardómara sem er orðinn sjötugur. Ég geld varhuga við því að slík regla verði að almennri reglu, sérstaklega í ljósi atvinnuleysistalna og þess hve margir háskólamenntaðir sérfræðingar eru atvinnulausir. Segja má að það sé í fyrsta sinn sem svo hefur verið hér á Íslandi og er það eftir haustdagana 2008.

Hér er verið að tala um að þessir hæstaréttardómarar verði ekki fastráðnir heldur verði hægt að leita til þeirra í ákveðnum málum, að þeir komi þá í Hæstarétt og létti af álagi. Eru uppi hugmyndir um að þetta séu aðilar með sérhæfða reynslu af ýmsum málaflokkum? Eiga þessir aðilar að koma inn í dómsmál þar sem dómar eru fordæmisgefandi, þegar dómur er fjölskipaður eins og gjarnan er í fordæmisgefandi málum, eða er það bara hin almenna regla að Hæstarétti sé falið það vald að kalla til þessa aðila þegar mál eru orðin svo mörg hjá réttinum að rétturinn sér ekki fram úr verkefnum sínum? Hvernig er þetta nákvæmlega hugsað en svo virðist sem þessir aðilar eigi bara að koma inn í eitt og eitt mál?