141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[13:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vil geta þess að við munum fara mjög vel yfir þetta í nefndinni þegar málið kemur þangað til meðferðar.

Tvær spurningar til hæstv. ráðherra. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að ekki sé gert ráð fyrir 6 millj. kr. vegna varadómara í fjárlögum fyrir 2013. Hvar ætlar hæstv. ráðherra að taka þessar 6 millj. kr. fyrst það er ekki gert ráð fyrir þeim í frumvarpinu fyrir árið 2013? Það er gert ráð fyrir 76,6 millj. kr., en ekki 6 millj. kr. vegna einmitt varadómaranna sem eitt af ákvæðunum fjallar um. Það er fyrri spurningin. Seinni spurningin er varðandi millidómstigið.

Í lok greinargerðarinnar með frumvarpinu er sagt, með leyfi forseta:

„Verði millidómstig að veruleika hér á landi á næstu árum má gera ráð fyrir að þeir sem nú starfa sem héraðsdómarar hafi áhuga á að starfa við hið nýja áfrýjunardómstig og því muni fækka í hópi héraðsdómara verði millidómstig sett upp.“

Spurning eða hvatning? Ég hef nú þegar lagt fram þingsályktunartillögu varðandi millidómstigið þar sem ég vil gjarnan að þingið álykti að hæstv. ráðherra semji frumvarp á grundvelli niðurstaðna tillagna ýmissa starfshópa sem hafa alltaf verið á einn og sama veginn um hvernig það eigi að setja það upp. Nú heyri ég að hæstv. ráðherra er hugsanlega með eitthvert frumvarp í smíðum og ég fagna því. En er það byggt á grundvelli þeirra starfshópa sem hafa ályktað varðandi millidómstigið eða er verið að fara einhverjar nýjar leiðir varðandi millidómstigið? Hefur einhverjum einum ákveðnum manni t.d. verið falið að semja þetta frumvarp? Og er þá verið að gera það í samræmi við niðurstöður þeirra starfshópa sem hafa eindregið farið á sama veg varðandi fyrirkomulagið á millidómstiginu?