141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:48]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Var þetta metið? Já, það var einmitt metið hvernig við ættum að endurreisa það og hvort við ættum að taka inn hækkanir og/eða lengingu. Þetta er gert samhliða, þ.e. fyrsta skrefið er tekið 2013 í þeim fjárlögum sem núna eru til afgreiðslu í þinginu. Síðan kemur það til framkvæmda árin 2014, 2015 og 2016 þannig að það er á næsta kjörtímabili, eins og hv. þingmaður bendir á. Það er einmitt verið að færa til baka, þ.e. þakið fer úr 300 þúsundum upp í 350 þúsund og ætlunin er að fara beint upp í 400 þúsund. Það sem er forvitnilegt að skoða, og er auðvitað ánægjulegast í sambandi við þetta, er að þegar fæðingarorlofið kom árið 2000 gjörbreyttist umhverfið þannig að karlar fóru að taka fæðingarorlof. Það er enn þá þannig að karlar taka almennt fæðingarorlof. Það sem er hægt að merkja á þeim skýrslum og greiningum sem hafa verið unnar er að þeir taka heldur færri daga. Þeir nota ekki alla 90 dagana sína, eða helminginn af sameiginlega kvótanum, svo ef tekin er almenn þróun þá hafa þeir stytt tímann.

Það er auðvitað svolítið erfitt að fylgjast með því vegna þess að það hafa verið veitt allt að þrjú ár til að taka út fæðingarorlofið. Það þýðir að við vitum ekki hvort menn nýta það síðan eftir eitt ár eða tvö ár þannig að það er ekki hægt að skoða fyrr en sá tími er liðinn fyrir hvert og eitt ár.

Almennt fagna ég því að þessu skuli vera vel tekið. Ég er viss um að það verður breyting. Þetta er hluti af því sem við höfum sett okkur, að horfa svolítið á málefni barna inn í árið 2013. Við höfum horft á barnabætur, fæðingarorlof, endurgreiðslu á tannlækningum barna og fleira, sem skiptir máli fyrir barnafjölskyldur.