141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[14:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta frumvarp á eftir að fara til vinnslu inn í velferðarnefnd þannig að þar mun gefast tækifæri til að fara ítarlega yfir málið, en ég gat ekki látið hjá líða að koma hér upp í 1. umr. til að lýsa ánægju með þetta frumvarp og þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir að leggja það fram. Það vita allir að þegar fjármálakerfið hrundi og gjaldmiðillinn olli það miklu tekjuhruni hjá ríkissjóði og sjálfvirkri útgjaldaaukningu. Við því varð að bregðast með hækkun skatta og niðurskurði í útgjöldum. Það þarf ekkert að draga dul á að mikill niðurskurður varð í fæðingarorlofinu. Það var langríkulegasta kerfið sem við áttum og ég taldi eðlilegt, af því ég þurfti að taka þátt í og leiða vinnu við þann niðurskurð, að það þyrfti að taka hlutfallslega meira á sig en t.d. almannatryggingakerfið þar sem við þurftum líka að skera niður, svo við tölum nú ekki um atvinnuleysistryggingakerfið sem varð gríðarlega mikilvægt í því mikla atvinnuleysi sem hrunið olli.

Það hafði verið þannig árin fyrir hrun að fjármunir úr Atvinnuleysistryggingasjóði höfðu verið teknir til að fjármagna Fæðingarorlofssjóð. Það er því dálítil saga fyrir því að Fæðingarorlofssjóður hafði ekki staðið undir sér við þær aðstæður sem honum voru búnar á 10. áratug 20. aldarinnar og jafnframt fyrsta áratug þeirrar 21. Nei, nú er ég að bulla, frú forseti, og biðst velvirðingar. Ég er að tala um fyrsta áratug 21. aldarinnar. Þetta góða kerfi sem mikil sátt ríkir um var ekki til á þeirri 20. Nú erum við að auka í kerfið aftur. Það er mjög mikilvægt, enda lá alltaf fyrir að þetta væru tímabundnar breytingar.

Hér hefur verið rætt um hvort hækka ætti þakið meira en lagt er til í frumvarpinu, eða hvort lengja ætti tímann. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að lengja tímann. Allir sem eignast hafa börn hér á landi þekkja að þegar níu mánaða fæðingarorlofstímabili lýkur, sem foreldrar ná oft að lengja um einn til tvo mánuði vegna uppsafnaðra sumarleyfa, tekur við tímabil þar sem börnin eru ekki komin í umsjón sveitarfélaganna hjá dagforeldrum eða á leikskólum en foreldrarnir eru skuldbundnir vinnuveitanda að mæta til vinnu. Þetta er mikið álag á ungar fjölskyldur hér á landi. Við erum mörg sem þekkjum það af eigin raun að þetta er tímabil sem reynir mjög á foreldrana, en er líka afskaplega óheppilegt tímabil fyrir barnið.

Ég verð því að segja að þessi lenging smám saman upp í 12 mánuði er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslenskar ungbarnafjölskyldur. Ég tel að við séum að standa vörð um jafnréttissjónarmiðið, enda var það í niðurskurðinum alltaf prinsipp að breyta ekki mánuðunum sem foreldrar hvor um sig eiga rétt á og sameiginlega tímabilinu. Slík breyting hefði verið mikið áfall fyrir kerfið þó að hún hafi freistað ýmissa vegna þess að það hefði gefið okkur meiri sparnað. Þar stóðum við fast í ístöðin og héldum þremur mánuðum á hvort foreldri og þremur sameiginlegum mánuðum. Það verður jafnframt gert við lenginguna, en árið 2013 verða mánuðirnir níu óbreyttir. Árið 2014 verða sameiginlegir mánuðir fjórir. Þannig lengist fæðingarorlofið um einn mánuð. Árið 2015 bætist hálfur mánuður við rétt hvors foreldris um sig þannig að foreldrarnir eiga hvor um sig rétt á þremur og hálfum mánuði, en sameiginlega á fjórum mánuðum. Árið 2016 eru fjórir mánuðir á hvort foreldri um sig og fjórir mánuðir sameiginlegir.

Síðan má lengi velta fyrir sér hvernig þessi skipting eigi nákvæmlega að vera. Ég tel þessa lausn ágæta sem ráðuneytið og hæstv. ráðherra leggur til í frumvarpinu.

Ég vil segja sem formaður velferðarnefndar að ég hlakka til umræðu um frumvarpið í nefndinni. Þetta er mikið hagsmunamál eins og ég hef farið yfir. Fæðingarorlofið hefur skipt gríðarlegu máli á síðustu árum. Ég vara mjög við því að það sé talað niður. Fjöldi feðra hefur tekið fæðingarorlof en þeim hefur því miður fækkað, ekki síst vegna ótryggs ástands á vinnumarkaði eins og hæstv. ráðherra fór yfir í ræðu sinni.

Á Íslandi höfum við líka verið með óvenjubarnmarga árganga. Okkur hefur á þessum tiltölulega erfiðu tímum þó auðnast sú gleði að hér hafa bæst við margir nýir litlir Íslendingar. Eitthvað er að draga úr fæðingartíðninni, en það er eitt af einkennum á norrænum velferðarkerfum að fæðingartíðni er með þeirri hærri sem gerist í Evrópu. Hún er hæst á Íslandi. Það er vel komið fyrir þjóð sem veit ekkert skemmtilegra en að eignast börn í þennan heim, en það skiptir líka miklu máli að þeim fjölskyldum sem eignast börn séu tryggð viðunandi skilyrði. Ég tel þetta frumvarp hæstv. ráðherra stuðla að því að bæta velferð og hag íslenskra barnafjölskyldna og fagna því.